Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna tekur undir málflutning formanna VLFA og Framsýnar varðandi kjarasamninga-viðræður aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Þá skorar stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna á Alþýðusamband Íslands, sem er í forsvari aðildarfélaga sambandsins í viðræðum við Samtök atvinnulífisins og stjórnvöld, að halda á lofti kröfunni um að lægstu laun taki mið af nýútgefnu neysluviðmiði Velferðarráðuneytisins. Í því sambandi minnir stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna Alþingi á að skv. 76. grein stjórnaskrárinnar hvílir sú skylda á herðum löggjafans að lögfesta lágmarks framfærsluviðmið. Sameiginleg ábyrgð Alþingis og Alþýðusambandsins, þeirra aðila sem ber að hafa almannahag að leiðarljósi er rík.
Samtökin hafa áður látið sig viðræður um kjarasamninga varða, enda skipta lánakjör almenning ekki síður máli en launakjör, en stjórnvöld hafa látið hjá líða að bjóða fulltrúum samtakanna að stóra borðinu. Sú afstaða er fráleit í ljósi þeirrar varðstöðu sem verkalýðshreyfingin hefur tekið um verðtrygginguna, sem í meira en þrjá áratugi hefur verið notuð til að halda uppi háum raunvöxtum á kostnað almennings.
Án þess að draga dul á hækkunarþörf launa vilja Hagsmunasamtök heimilanna benda á að krafa samtakanna um almenna leiðréttingu lána er ein öflugasta kjarabót sem völ er á. Sú leiðrétting hefði veruleg áhrif til lækkunar á framfærslukostnaði þorra almennings. Þær afkomutölur sem nú berast úr bönkunum skjóta enn styrkari stoðum undir þá kröfu en fyrir var.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
4. apríl 2011