ASÍ-UNG sendi frá nýlega frá sér ályktun þar sem tekið er undir skoðanir Framsýnar í skattamálum sem gert hefur alvarlegar athugsemdir við tillögur ASÍ og stjórnvalda í skattamálum. Tillögurnar miða að því að skilja launþega sem hafa undir 250 þúsund krónur á mánuði eftir. Þess í stað er skattalækkunum ætlað að koma best úr fyrir þá sem eru á hærri launum. Framsýn hefur að sjálfsögðu mótmælt þessum tillögum og nú hefur ASÍ-UNG tekið undir með félaginu, sjá meðfylgjandi ályktun sem er afar merkileg í ljósi skoðana ASÍ sem vakið hafa mikla athygli hjá láglaunafólki í landinu:
ASÍ-UNG minnir stjórnvöld á unga fólkið í nýrri ályktun um skattamál. Þar segir:
„Nú hefur ríkisstjórnin boðað til breytingar á skattkerfinu og ASÍ lagt fram tillögu um aðra leið. Í stuttu máli leiða báðar þessar leiðir til þess að verkafólk sem hefur undir 250.000 kr. í laun fær enga skattalækkun, heldur einungis þeir sem hafa hærri tekjur og í raun því hærri tekjur því meiri lækkun.
Hvað er ríkisstjórnin að hugsa? Og hvers vegna er launaþegahreyfing sem ætti að bera hag allra fyrir brjósti að leggja fram tillögur sem einungis gagnast „þorra launafólks“ í stað þess að berjast fyrir hag ALLRA. Aðgerðir eins og t.d. að hækka persónuafslátt er aðgerð sem gagnast ÖLLUM, sama hvort þeir eru með undir 200.000 kr. eða yfir 2.000.000 kr. í mánaðarlaun!
Stjórn ASÍ-UNG vill vekja athygli á því að stór hluti félagsmanna aðildarfélaga ASÍ er ungt fólk á aldrinum 16-35 ára og þar á meðal eru fjöldamargir sem ekki ná endum saman um hver mánaðarmót einfaldlega vegna þess að of lítill peningur er að rata í launaumslagið.
Rétt er að minna á að unga fólkið er í raun sá hópur sem er með hvað stærstu útgjöldin. Þau eru að reyna að koma sér upp heimili, og situr oft uppi annað hvort með stökkbreytt húsnæðislán eða er á rándýra leigumarkaðnum, það er að stofna til fjölskyldu, fer í fæðingarorlof, borgar leikskólagjöld, borgar fæðisgjöld í skólum, borgar námslán o.s.frv. Ekki nóg með það heldur er þessi sami hópur með lægstu launin vegna stuttrar starfsreynslu á vinnumarkaði og lendir þar af leiðandi í lægri þrepum kauptaxtanna. Á mannamáli þýðir þetta að unga fólkið á að standa straum af stærstu fjárhagsskuldbindingunum með lægstu laununum. Þetta „meikar ekki sens …“
Stjórn ASÍ-UNG fullyrðir að 2.000 kr. skattalækkun til þeirra sem eru tekjulægstir mun koma til að nýtast samfélaginu betur heilt yfir heldur en að rétta millitekju- og hátekjufólkinu fleiri þúsundkalla til umráða um hver mánaðarmót. Ríkisstjórnin og ASÍ verða að átta sig á því að unga fólkið er framtíð Íslands. Unga fólkið verður að fá tækifæri til að skapa sér framtíð hér á landi, ella er hætt við því að unga fólkið pakki ofan í tösku og segi „bless bless Ísland“
Hér má sjá frétt um málið eftir fund Framsýnar 21. nóvember þegar tillögum ASÍ og stjórnvalda var mótmælt harðlega:
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar stéttarfélags hafnar leið ríkistjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands í breytingum á tekjuskatti sem miða að því skilja lágtekjufólk eftir með óbreytta skatta af sínum tekjum. Þess í stað leggur Framsýn til að persónuafslátturinn verði hækkaður öllum til góða.
Ályktun
Um breytingar á tekjuskatti
„Framsýn stéttarfélag hafnar tillögum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að lækka skatta hjá þeim tekjuhærri, á meðan þeim sem eru með innan við 250.000 kr. á mánuði er ætlað að greiða áfram óbreytta skatta af sínum tekjum.
Þá vekur athygli að Alþýðusamband Íslands, sem gert hefur athugasemdir við tillögur ríkisstjórnarinnar, telur ekki ástæðu til að leggja til breytingar á tekjuskatti þannig að skattar á lágtekjufólki verði lækkaðir. Sama viðhorf virðist ríkja hjá ASÍ og hjá ríkisstjórn Íslands, ekki sé þörf á lækkun skatta hjá þeim sem tekjulega skrapa botninn á íslenskum vinnumarkaði.
Framsýn, stéttarfélag krefst þess að svigrúm til skattalækkana verði notað til að hækka persónuafsláttinn öllum til góða, ekki síst þeim fjölmenna hópi sem starfar eftir launatöflu Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þar liggja kauptaxtar verkafólks á bilinu kr. 192.000,- til kr. 228.000,-. Innan sambandsins eru um 50.000 félagsmenn.
Framsýn, stéttarfélag hvetur verkafólk til að rísa upp og fylgjast með umræðunni. Látum þetta ekki yfir okkur ganga.“