Síðustu samningarnir vegna áforma þýska fyrirtækisins PCC um að byggja Kísilver á Bakka voru undirritaðir í morgun.
Að sögn Bergs Elíasar Ágústssonar, bæjarstjóra Norðurþings, voru samningarnir undirritaðir rafrænt. Þannig undirriti hann samningana, skanni þá inn í tölvu og sendi á PCC í Þýskalandi með rafrænum hætti auk þess að senda þeim upprunalega eintakið í ábyrgðarpósti. Jafnframt munu forsvarsmenn PCC undirrita samningana með sama hætti og senda þá síðan til Íslands með fyrrnefndum hætti.
„Annars vegar er um að ræða lóðarsamninga og allt sem því fylgir og hinsvegar er um hafnarsamning að ræða. Þetta eru síðustu samningarnir sem við göngum frá þannig að nú er öllum samningnum hvað þessi mál varðar lokið af hálfu sveitarfélagsins,“ segir Bergur Elías sem bætir við að eftirstandi að aflétta þurfi ákveðnum fyrirvörum á orkusölusamningum til að þeir virkist en auk þess þurfi að fylgja eftir í fjárlögum þeim lögum sem samþykkt voru á síðustu dögum þingsins í vor um uppbyggingu innviða sem nauðsynleg er til að allt geti gengið upp.
„Þetta er stórt skref fyrir okkur og í sjálfu sér er framhaldið í höndum annarra en þetta gengur með ágætum og það er mikill kraftur í þessu,“ segir Bergur Elías.
Eins og fram kemur á mbl.is er bæjarastjóri Norðurþings eðlilega ánægður með undirritun samninga varðandi áform fyrirtækisins PCC að reisa Kísilver á Bakka við Húsavík. Hér er hann í öðru hlutverki, það er í Húsavíkurrétt á réttardaginn sem reyndar stendur í landi Bakka. Væntanlega verður réttin færð, gangi áform PCC eftir sem verður vonandi.