Hin árlega og vinsæla hrútasýning Fjáreigendafélags Húsavíkur fór fram um helgina. Að þessu sinni var keppnin afar spennandi. Keppt var í tveimur flokkum, það er flokki eldri og yngri hrúta. Eftir að dómararnir, Sigurður Þórarinsson úr Skarðaborg og Guðmundur Jónsson úr Fagraneskoti höfðu endurmetið hrútana þar sem tveir voru jafnir og efstir dæmdu þeir kynbótahrútinn Guðna Ágústsson í fyrsta sæti. Hann fékk því flest stig allra hrúta á sýningunni en hann keppti í flokki yngri hrúta. Hrúturinn Guðni er í eigu frístundabænda í Grobbholti sem er heimsþekkt fjárræktarbú á Skógargerðismelnum á Húsavík. Hrútur sem Guðrún Viðar á sigraði í flokki eldri hrúta.
Hrútasýningin er vinsæll dagskrárliður á Mærudögum.
Pétur Helgi Pétursson stjórnaði samkomunni líkt og síðustu ár. Að sjálfsögðu stóð Pétur sig vel enda vanur maður þar á ferð.
Fjáreigendur á Húsavík eiga marga fallega hrúta og því er mikil spenna í loftinu þegar hrútaþuglið fer fram á Mærudögum sem er í bland grín og alvara.