Velheppnuð afmælisráðstefna Starfsafls og Landsmenntar

Starfsafl og Landsmennt fögnuðu 10 ára afmæli síðasta fimmtudag með stuttri og velsóttri afmælisráðstefnu á Hótel Sögu.  Ráðstefnan tókst vel og var gerður góður rómur að erindum framsögumanna. Sjá nánari uppfjöllun og erindi formanns Framsýnar sem var einn af frummælendum fundarins.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar og stjórnarmaður í Starfsafli sagði frá upphafinu, gerði grein fyrir aðdraganda og stofnun sjóðanna.  Kristín Njálsdóttir, forstöðumaður Landsmenntar og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Starfsafls, fóru yfir helstu verkefni sjóðanna frá upphafi og helstu áherslum í starfinu um þessar mundir.  Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags og stjórnarmaður í Landsmennt, fór yfir sýn og áherslur stéttarfélaga í fræðslumálum og þátt þeirra í starfi sjóðanna. Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, fór yfir fræðslustarf ÍGF og hvernig félagið hefur nýtt sér þjónustu Fræðslustjóra að láni sem sjóðirnir, ásamt SVS, buðu félaginu upp á.  Berglind Freyja Búadóttir, nemandi í Háskólabrú Keilis, fór yfir sinn námsferil, sem sjóðirnir hafa styrkt, allt frá þátttöku í Grunnmenntaskólanum yfir í Háskólabrú Keilis, og uppskar mikið lof fyrir sitt innlegg.  Er óhætt að segja að frásögn hennar hafi hrifið alla þátttakendur en þeir voru um 100 talsins.  Brian Daniel Marshall, fræðslustjóri Norðuráls, fór yfir fræðslustarf félagsins sem er víðtækt og fjölþætt. Í lok ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður með þátttöku þeirra Hjördísar Þ. Sigurþórsdóttur, formanns AFLs starfsgreinafélags, Jóns Þóris Frantzsonar, forstjóra ÍGF, Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar stéttarfélags og Auðar Þórhallsdóttur, fræðslustjóra Samskips.  Þeim bar öllum saman um fræðslusjóðirnir væru komnir til að vera, að þeir hefðu unnið feikigott starf og hlúa þyrfti að þætti menntunar og þjálfunar, ekki síst á erfiðum tímum í atvinnulífi landsmanna.  Umræðurnar voru líflegar og áheyrendur í sal tóku þátt með því að beina spurningum og athugasemdum til pallborðsins. Fundarstjóri var Maríanna Traustadóttir og sinnti hún fundarstjórn með röggsemi og skemmtilegheitum, m.a. stjórnaði hún teygingum fundarmanna þegar setan var orðin of löng eins og sjá má á einni af mörgum myndum hér að neðan sem Valdís A. Steingrímsdóttir, verkefnisstjóri Starfsafls, tók á ráðstefnunni. Sem fyrr segir þótti ráðstefnan takast mjög vel og fengu aðstandendur hennar að heyra mörg jákvæð viðbrögð frá þátttakendum. (Heimild: starfsafl.is, þar má einnig sjá flest erindin sem flutt voru)

Forstöðumenn fræðslusjóðanna Kristín Njálsdóttir og Sveinn Aðalsteinsson gerðu grein fyrir starfsemi sjóðanna frá upphafi.

Ágæta samkoma! (ræða formanns Framsýnar)

Eins og fram hefur komið, þá erum við hér samankomin til að fagna 10 ára starfsafmæli fræðslusjóðanna Landsmenntar og Starfsafls. Þrátt fyrir að árin séu ekki orðin mörg í sögulegu samhengi og við séum í raun að halda upp á  barnaafmæli sjóðanna hafa afkvæmin okkar dafnað vel þau 10 ár sem liðin eru. Það má með sanni segja að það hafi verið mikið gæfuspor þegar aðilar vinnumarkaðarins undirrituðu kjarasamninga árið 2000 sem fólu meðal annars í sér stofnun fræðslusjóða með sérstökum kjarasamningsbundnum framlögum til sjóðanna. Á þeim tíma efuðust samningsaðilar ekki um  mikilvægi starfsmenntunar fyrir íslenskt atvinnulíf og menn voru því tilbúnir að blása sameiginlega til sóknar í starfsmenntamálum verkafólks sem hafði fyrir litla sem enga menntun umfram skyldunám.  Frá upphafi hafa samningsaðilar einsett sér það að hlúa vel að starfi sjóðanna sem skilað hefur þeim árangri að þúsundir félagsmanna stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands hafa nýtt sér einstaklingsstyrki  til starfsmenntunar og/eða tómstundanámskeiða. Þá hafa fjölmörg fyrirtæki sem aðild hafa átt að sjóðunum jafnframt nýtt sér styrkina til að efla innra starf fyrirtækjanna með öflugu námskeiðahaldi, samanber ÚA skólann á sínum tíma. Aukin hæfni og starfstengd menntun starfsmanna er nauðsynlegur þáttur í meiri framleiðni og bættri samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Atvinnulífið þarfnast vel menntaðra starfsmanna sem geta mætt nýjum þörfum og breyttum kröfum vinnumarkaðarins á hverjum tíma. Þá er mikilvægt að framboð á námi og námsefni svari þörfum atvinnulífsins einnig á hverjum tíma. Við megum heldur ekki gleyma því að gildi menntunar fyrir fullorðinna er mikilvægt sem birtist ekki síst í hærri launum, betri störfum, meiru atvinnuöryggi, betri og heilsamlegri vinnuaðstæðum, virðingu í starfi og ábyrgð. Sá sem hér stendur hefur komið að þessum málum úr ýmsum áttum enda mikill áhugamaður um bætta stöðu verkafólks. Það er sem formaður í stéttarfélagi, stjórnarmaður í símenntunarmiðstöð og Landsmennt auk þess að hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu starfsmenntunar fyrir fiskvinnslufólk. Það hefur verið ánægjulegt að takast á við þessi verkefni, ekki síst frá stofnun sjóðanna árið 2000 en þá opnaðist nýr heimur eins og ég hef áður komið inn á. Ég vil reyndar halda því fram að með stofnun sjóðanna hafi verið stigið eitt stærsta framfaraspor í réttindabaráttu verkafólks á síðari árum.  Það skiptir nefnilega verulegu miklu máli fyrir fólk sem hefur lítið milli handana að eiga rétt á þrettánda mánuðinum til að greiða niður skipulagt nám eða námskeið. Hér er ég að vitna til þess að félagsmenn stéttarfélaganna geta átt rétt á allt að 180 þúsund króna námsstyrkum frá sjóðunum enda hafi þeir ekki nýtt réttinn í þrjú ár. Það munar um minna enda jafngildir styrkurinn í mörgum tilfellum mánaðarlaunum verkafólks. Því þarf enginn að efast um viðhorf stéttarfélaganna til fræðslu félagsmanna og mikilvægi fræðslusjóðanna enda markmiðið skýrt. Það er að treysta stöðu einstaklinga á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni á sínum forsendum. Líkt og fullorðna konan sem lauk grunnskólaprófi þess tíma. Eftir það hóf hún störf í fiskvinnslu og sótti fljótlega 40 klukkutíma fiskvinnslunámskeið á vegum Starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar. Þegar hún lauk námskeiðinu fékk hún í hendur viðurkenningarskjal sem hún hengdi upp á áberandi stað í stofunni heima hjá sér.  Þegar hún var spurð af hverju hún hefði komið skjalinu fyrir í stofunni á besta stað svaraði hún því til að hún væri svo stolt að hafa lokið námskeiðinu sem gerði hana að betri starfsmanni og veitti henni auk þess aukið sjálfstraust þar sem hún hefði mjög stutta skólagöngu að baki. Þetta væri fyrsta viðurkenningin sem hún hefði fengið eftir sína stuttu skólagöngu og því væri viðurkenningin henni mikils virði. Þúsundir félagsmanna sem aðild eiga að sjóðunum geta heilshugar tekið undir þessa reynslusögu enda hafa margir hverjir gengið í gegnum sambærilegar aðstæður og fiskvinnslukonan og öðlast aukna sjálfsvirðingu með því að fá aðgengi að gagnlegu námi á viðráðanlegu verði vegna stuðnings fræðslusjóðanna. Það er nefnilega þannig, að það er ekki öllum gefið að hefja langskólanám. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður s.s. persónulegar aðstæður, fjölskylduaðstæður eða fjárhagslegar forsendur. Markmið sjóðanna hefur m.a. verið að koma til móts við þessa hópa og ég tel að sjóðunum hafi tekist það með miklum ágætum. Þess ber einnig að geta að tvíburarnir, Landsmennt og Starfsafl, sem gleðjast í dag með því að halda veglega upp á 10 ára afmælið sitt hafa unnið vel saman þann áratug sem er liðinn. Í því sambandi  hafa verið haldnir reglulegir samráðsfundir er snertir sameiginleg hagsmunamál sjóðanna með það að markmiði að samræma áherslur í uppbyggingu þeirra, notendum til góðs.  Rétt er að taka fram í gani að þetta samráð hefur verið á jákvæðu nótunum og flokkast því ekki undir ólöglegt samráð eins og við heyrum svo oft talað um í fjölmiðlum sbr. t.d. verðsamráð olíufélaganna. Við sem erum í daglegum samskiptum við félagsmenn skynjum vel þá miklu ánægju sem ríkir með fræðslusjóðina meðal okkar umbjóðenda og heyrum oft jákvæðar reynslusögur frá fólki sem gengið hefur í gegnum nám, ekki síst vegna stuðnings sjóðanna. Það er ekki bara að menn séu ánægðir með góða styrki er tengjast námi og ferðakostnaði því tengdu, heldur hefur viðhorf verkafólks til starfsemi stéttarfélaga tekið jákvæðum breytingum og gert það eftirsóknarverðara að vera þátttakendur í starfi þeirra. Þátttaka í námi eða styttri námskeiðum hefur einnig leitt til þess að einstaklingum hafa boðist betri störf og hærri laun. Til viðbótar var það verulega stór áfangi þegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hóf starfsemi og heimilt varð að meta námskrár vegna  fagnámskeiða og annarra starfstengdra námskeiða til eininga á framhaldskólastigi. Gleymum því heldur ekki að tilkoma fræðslusjóðanna hefur einnig skapað fjölda starfa við kennslu og námsgagnagerð. Þá hafa símenntunarstöðvar sprottið upp í hverju landshorni ekki síst vegna stuðnings frá sjóðunum til námskeiðahalds. Styrkirnir hafa m.a. verið fólgnir í einstaklingsstyrkjum, fyrirtækjastyrkjum, styrkjum til námsgagnagerðar og almennra námskeiða. Við getum í raun talað endalaust um gagnsemi og mikilvægi sjóðanna, ekki síst á þeim niðurskurðartímum sem við erum að upplifa um þessar mundir, þegar hver króna skiptir máli. Svar sjóðanna hefur verið að halda sínu striki með því að styðja vel við bakið á notendum sjóðanna. Það er að snúa vörn í sókn og gera okkar fólki þannig betur í stakk búið að takast á við nýjar áskoranir í lífinu.

Kæru félagar!

Tilgangur lífsins er sá að menntast og þroskast í starfi, við eigum að lifa til að læra, öðlast aukinn skilning á okkar viðfangsefnum og breyta lífinu þannig að það verði auðugra af þeim gæðum sem gera það sannarlega þess virði að lifa því. Byltingin felst ekki í að hafna hagnýtu gildi menntunar, heldur að sjá menntunina sem markmið sem gefur lífinu gildi og stefnu til aukins þroska. Þetta er sú hugsjón sem ein getur fært okkur þá framtíðarsýn sem við þörfnumst öllu öðru fremur til að breyta samfélaginu til betri vegar. Þá verður andlegur og siðferðilegur þroski það sem allt snýst um, en ekki veraldleg velgengni einvörðungu. Þá fyrst fær líf okkar eiginlegt gildi og innihald. Við lifum þá til þess að njóta þess að vera til, virkja lífsöflin og löngunina til að hvessa skilninginn, bæta handverkið og finna hjartað slá í takt við hjörtu annarra, svo ég vitni óbeint til orða fræðimanna (Stephans G. Stephansonar og Páls Skúlasonar fyrrverandi rektors Háskóla Íslands).

Það er okkar að marka leiðina saman að þessu markmiði með öflugum fræðslusjóðum. Ég vil í lokin óska okkur öllum til hamingju með afmæli sjóðanna um leið og ég vil þakka því ágæta starfsfólki sem unnið hefur fyrir Landsmennt og Starfsafl í gegnum tíðina fyrir samstarfið og vel unnin störf í þágu sjóðanna og notenda á hverjum tíma. Þá vil ég hrósa Samtökum atvinnulífsins og aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands fyrir að hafa staðið vörð um starfsemi sjóðanna þau 10 ár sem liðin eru. Ég efast ekki um að við munum mæta hér aftur að tíu árum liðnum með blöðrur og ýlur til að fagna tuttugu ára afmæli sjóðanna því eitt er víst að fræðslusjóðirnir eru komnir til að vera og eiga bara eftir að eflast atvinnulífinu og notendum sjóðanna til farsældar. Því segi ég, Lifið heil og gleðilega hátíð.

Aðalsteinn Á. Baldursson

 Formaðurinn á flugi eins og oft áður. Ráðstefnan fór fram á Hótel Sögu fyrir helgina.

Deila á