Stjórn Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum kom saman til fundar í gær. Tilefni fundarins var að undirbúa aðalfund félagsins auk þess að ræða nokkur mál sem komið hafa upp milli stjórnarfunda og varða félagsmenn Þingiðnar. Vel gekk að ganga frá öllum tillögum varðandi aðalfundinn. Þá urðu töluverðar umræður um störf ófaglærðra í byggingarvinnu og við viðgerðir á bílum. Töldu menn óþolandi að ófaglærðir gengu í störf faglærðra og nefndu nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Samþykkt var að fylgjast vel með þróuninni og grípa inn í atburðarrásina telji stjórnin ástæðu til þess enda störf iðnaðarmanna lögvernduð. Jafnframt urðu umræður um hækkanir á stjórnarlaunum í Lífeyrissjóðunum Stapa. Á síðasta ársfundi sjóðsins var samþykkt tillaga frá atvinnurekendum um verulegar hækkanir á launum stjórnar, varamanna og stjórnarformanns. Farið var yfir hækkanirnar og voru menn hneykslaðir. Nokkur önnur smærri mál voru á dagskrá fundarins í gær sem fór vel fram.
Stjórn Þingiðnar telur óþolandi að ófaglærðir gangi í störf faglærðra. Samþykkt var að fylgjast vel með þróuninni og grípa inn í atburðarrásina telji stjórnin ástæðu til þess enda störf iðnaðarmanna lögvernduð.
Umræður urðu á stjórnarfundinum um miklar hækkanir á stjórnarlaunum í Stapa, lífeyrissjóði en félagið átti fulltrúa á fundinum enda aðili að sjóðnum.