Formaður Framsýnar var á Raufarhöfn í gær þar sem hann heilsaði upp á félagsmenn og aðra þá sem hann rakst á við höfnina og reyndar á götum bæjarins líka. Meðal annars spjallaði hann við trillukarla sem voru að koma frá því að vitja um grásleppunet. Enn aðrir voru að gera sig klára fyrir vertíðina. Menn voru nokkuð ánægðir með aflabrögð en kvörtuðu undan ótíð. Sjónvarpið var á staðnum að taka upp þátt sem væntanlega verður sýndur í Landanum á næstunni en fréttamenn fóru í róður með Önundi á Þorsteini GH sem gerður er út á þorskanet frá Raufarhöfn. Um er að ræða merkilegan mann og bát sem á sér jafnframt merkilega sögu. Þá er það alltaf ánægjulegt þegar nýir bátar koma til heimahafnar. Einn slíkur kom á dögunum til Raufarhafnar. Það er Birgir ÞH 323 sem er rúmlega 12 tonna bátur smíðaður 1989. Báturinn var keyptur frá Sandgerði og hét áður Birgir. Það eru hjónin Viðar Örn Þórisson og Kristín Ásgeirsdóttir sem eiga bátinn.
Glæsilegur bátur Birgir ÞH 323 kom á dögunum til heimahafnar á Raufarhöfn eftir að hann var keyptur frá Sandgerði.
Snorri Sturluson var að landa grásleppu eftir góða veiðiferð.
Friðgeir Hjaltason tekur við körum og gerir allt klárt fyrir næstu veiðiferð.
Páll Þormar þjónustar bátanna og kemur aflanum á vikt áður en hann fer í vinnslu hjá GPG-Fiskverkun á Raufarhöfn.
Valli hafnarvörður og Gunnar sem er verkstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn fara yfir stöðuna sem virðist nokkuð góð miðað við brosið á þeim félögum.
Þorsteinn GK 15 var að koma úr róðri en báturinn er gerður út á þorskanet. Um borð voru óvenjulegir farþegar, það er sjónvarpsmenn frá Ríkissjónvarpinu. Sagan segir að þeir hafi verið að taka upp þátt fyrir Landann í þessum merkilega bát sem á sér mikla og langa sögu.