Eins og fram hefur komið verður Bjarni Hafþór Helgason með gamanmál á hátíðarhöldunum 1. maí á Húsavík. Bjarni Hafþór er góð blanda af Jökuldælingi og Húsvíkingi sonur heiðurshjónanna Jóhönnu Aðalsteinsdóttur og Helga Bjarnasonar sem um árabil var formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur. Jóhanna var einnig áberandi í samfélaginu og meðal annars farsæll bæjarfulltrúi á Húsavík til margra ára. Bjarni Hafþór fór nýlega á kostum á herrakvöldi Völsungs eða eins og ritstjóri Skarps skrifaði. “Sögumaðurinn ógurlegi frá Grafarbakka fór á flugaskeiði með himinskautum og jós úr sagnabrunni sínum og voru þar margar glitrandi perlur en engum þeirra var þarna varpað fyrir svín, að mati viðstaddra.” Já Bjarni Hafþór er í toppformi og mun örugglega fara á kostum, ekki spurning. Ekki missa af því, fjölmennum í höllina á 1. maí. Fögnum góðum degi og gleðjumst saman. Hvað er betra?