Aðalfundur deildar verslunar- og skrifstofufólks var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna í gær. Nokkur endurnýjun varð í stjórn deildarinnar en Brynja Pálsdóttir og Hafliði Jósteinsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Þeirra í stað voru kjörin í stjórn Birgitta Bjarney Svavarsdóttir og Kári Kristjánsson. Birgitta Bjarney starfar hjá Eimskip á Húsavík og hefur reynslu af störfum í málefnum verslunar- og skrifstofufólks en hún sat áður í stjórn Verslunarmannafélags Húsavíkur sem nú er hluti af Framsýn- stéttarfélagi. Kári starfar hjá Húsasmiðjunni á Húsavík og er að stíga sín fyrstu skref í trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Sigríður Birgisdóttir og Ásgerður Arnardóttir gáfu kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni. Stjórn deildarinnar var kjörin einróma og sögðust fundarmenn almennt vera ánægðir með starfsemi félagsins.
Hafliði Jósteinsson, sem starfað hefur fyrir verslunarmenn í áratugi, tilkynnti það á aðalfundinum að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn deildarinnar. Voru honum færðar sérstakar þakkir fyrir sitt framlag til félagsins. Hann þakkaði einnig fyrir sig og sagði störf sín innan verkalýðshreyfingarinnar hafa verið góðan skóla og hafa gefið sér mikið.