Formaður og varaformaður Þingiðnar afhendu í morgun Framhaldsskólanum á Húsavík fjórar örtölvur að gjöf til að nota í frumkvöðlafræði sem kennt er við skólann. Forsvarsmenn Þingiðnar sögðust ekki efast um mikilvægi framhaldsskólans á Húsavík. Þess vegna ekki síst væri mikilvægt að fyrirtæki, stofnanir, félagssamtök og íbúar svæðisins stæðu vörð um skólann. Með gjöfinni vildi félagið leggja sitt að mörkum til að styðja við áhugavert nám á vegum FSH í frumkvöðlafræði sem vonandi yrði stökkpallur fyrir nemendur inn í frekara iðnnám. Að námi loknu væru nemendurnir að sjálfsögðu velkomnir í Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum.
Herdís Þuríður Sigurðardóttir aðstoðarskólameistari tók við gjöfinni og þakkaði félaginu kærlega fyrir gjöfina sem kæmi að góðum notum fyrir nemendur skólans sem stunduðu þetta nám. Þess má geta að Arnhildur Pálmadóttir kennir frumkvöðlafræðina við FSH. Að hennar sögn verða örtölvurnar notaðar við forritun til að útbúa tölvustýrða hönnun, lítil vélmenni eða listaverk sem unnin verða á vorönn. Líkt og Þuríður þakkaði hún kærlega fyrir gjöfina.
Jónas Kristjánsson formaður og Vigfús Þór Leifsson varaformaður Þingiðnar komu færandi hendi í FSH í morgun með veglega gjöf til skólans til að auðvelda nemendum í frumkvöðlafræði að stunda sitt nám. Með þeim eru, Herdís Þuríður aðstoðarskólameistari og Arnhildur Pálma sem hefur umsjón með verkefninu.
Jón Þór og aðrir nemendur voru ánægðir með gjöfina.
Þessi unga og myndarlega stúlka kemur frá Frakklandi og er skiptinemi í FSH. Því miður höfum við ekki nafnið á henni.
Magnaður hópur, en þau stunda nám í frumkvöðlafræði við Framhaldsskóla Húsavíkur. Að sjálfsögðu fengu nemendurnir auka gjöf, það er húfu frá Þingiðn.
Hér er ein örtölva eins og nemendur koma til með að nota við námið í vetur.