Ríkissjónvarpið hefur síðustu daga fjallað um útgreiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga innan ASÍ sem hafa aukist hjá flestum stéttarfélögum. Í fréttunum í gær var gert að umræðuefni greiðslur úr sjúkrasjóði Framsýnar sem hafa aukist verulega á síðustu árum eða um 47% milli árana 2010 og 2012. Hækkunin er hins vegar mun minni milli árana 2011 og 2012 eða 8,9%. Ýmsar skýringar eru á þessu. Varðandi útgreiðslurnar þá munar mest um sjúkradagpeninga sem félagsmenn Framsýnar eiga rétt á hjá félaginu í veikindum, það er eftir að þeir hafa lokið sínum kjarasamningsbundna veikindarétti hjá vinnuveitendum. Þá eru dæmi um að atvinnulausir detti út af skrá vegna veikinda og leiti því til sjúkrasjóða stéttarfélaganna eftir sjúkradagpeningum. Á síðasta ári greiddi Framsýn félagsmönnum sjúkradagpeninga og bætur úr sjúkrasjóði félagsins upp á tæpar 25 milljónir. Árið 2010 var sambærileg tala 19, 4 milljónir. Þar af voru greiðslur sjúkradagpeninga 10 milljónir árið 2010 og 14,7 milljónir árið 2012 eða um 47% hærri en árið 2010. Á þessu má sjá hvað sjúkrasjóðir stéttarfélaga eru mikilvægir félagsmönnum. Þá er rétt að geta þess að sjúkrasjóður Framsýnar hefur burði til að takast á við auknar greiðslur úr sjóðnum enda hlutfallslega sterkasti sjúkrasjóður stéttarfélags innan Starfsgreinasambands Íslands miðað við félagsmannafjölda. Þessar upplýsingar koma fram í úttekt sem sambandið gerði á stöðu og starfsemi aðildarfélaga sambandsins á síðasta ári.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, var í viðtali í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær þar sem málefni sjúkrasjóða voru til umræðu.