„Það er eiginlega alveg klikkað veður og búið að spá því sama eða jafnvel verra á morgun, Gamlársdag. Svo það vart ekki hundi út sigandi, hvað þá að vera að ýta fjölskyldufólki, gömlu og ungu, út í almenningshlaup. Það er lítið vit í því,“ segir Ágúst Sigurður Óskarsson einn af skipuleggjendum Gamlárshlaupsins á Húsavík.
Ákveðið hefur verið að fresta hlaupinu um óákveðin tíma þar sem veður er afar slæmt á Húsavík og nágrenni og aðstæður bjóða ekki upp á hlaup í hríð og ófærð. Þetta er þriðja árið í röð sem blásið er til Gamlárshlaups á Húsavík og er það að festa sig í sessi sem hefð að sögn Ágústs.
„Þátttakan hefur verið vaxandi ár frá ári, ég held það sé vegna þess að það er aukinn áhugi á hreyfingu hér eins og annars staðar.“ Um fjölskylduviðburð er að ræða þar sem hlaupið er öllum opið og eru þátttakendur á öllum aldri.
Hlaupið hefur því ekki verið blásið alfarið af heldur verður hlaupadagur ákveðinn síðar. „Við ætlum bara að sjá hvernig veðrið þróast og ákveða það í samráði við bæjarfélagið þannig að þetta stangist ekki á við aðra viðburði.“ Úr því sem komið er er hins vegar ljóst að Gamlárshlaupið í ár verður Nýárshlaup. (Heimild, mbl.is)