Innan Framsýnar hefur verið starfandi vinnuhópur sem ætlað er það hlutverk að gera drög að siðareglum fyrir félagið. Hópurinn hefur nú skilað frá sér drögum að siðareglum sem verða afgreiddar á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs félagsins í janúar. Stjórn Framsýnar samþykkti á fundi sínum í gær að gefa almennum félagsmönnum kost á að hafa áhrif á siðareglurnar. Áhugsamir félagsmenn eru beðnir um að lesa þær yfir og koma sínum ábendingum á framfæri við formann félagsins sem er með netfangið kuti@framsyn.is. Hér má sjá drögin:
Siðareglur Framsýnar stéttarfélags
1. Siðareglur
Í reglum þessum á „fulltrúi Framsýnar“ við um alla fulltrúa þess í stjórnum, nefndum og ráðum svo og aðra þá sem koma fram fyrir hönd félagsins og gegna trúnaðarstörfum fyrir það. Reglurnar eiga einnig við um starfsmenn félagsins. Ákvæði siðareglna félagsins eiga við hvort heldur fulltrúi Framsýnar þiggur laun fyrir störf sín eða ekki.
2. Trúnaðargögn
Þegar unnið er með persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, í starfsemi Framsýnar eða sjóða á vegum þess skal farið með þær upplýsingar skv. lögum um persónuvernd nr.77/2000. Slíkra upplýsinga skal einungis aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og þess gætt að afla ekki eða óska eftir frekari upplýsingum og gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skal eyða þeim með fullnægjandi hætti. Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á lögum um persónuvernd nr.77/2000.
3. Ábyrgð
Fulltrúi Framsýnar er bundinn af lögum félagsins, reglugerðum og samþykktum félagsins á hverjum tíma og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála. Honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi. Um hæfi í einstökum málum fer skv. almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga skv. lögum nr.37/1993.
4. Hagsmunir
Fulltrúi Framsýnar sem tilnefndur hefur verið til setu í stjórnum, nefndum eða ráðum annarra samtaka, félaga eða stofnana skal fylgja eftir samþykktum og stefnumálum Framsýnar í störfum sínum. Fulltrúar félagsins skulu og vinna að hagsmunamálum félagsmanna Framsýnar í störfum sínum fyrir félagið. Komi í ljós að sannfæring viðkomandi fulltrúa fer ekki saman við stefnumál eða samþykktir félagsins skal viðkomandi gera stjórn Framsýnar grein fyrir afstöðu sinni.
5. Þagnarskylda
Fulltrúa Framsýnar ber að gæta þagnarskyldu um það sem hann kann að verða áskynja um í starfi sínu eða erindum fyrir félagið og leynt á að fara samkvæmt lögum og eðli máls.
Þagnarskyldan helst áfram eftir að látið er af störfum.
6. Fundargögn og fundargerðir
Fulltrúum Framsýnar og starfsmönnum er óheimilt að birta eða dreifa skjölum sem varðveitt eru í vinnuumhverfi starfsfólks, stjórnar og trúnaðarmannaráðs, nefndum eða á öðrum vettvangi eða í aðstöðu félagsins.
Skjöl sem varða mál sem hafa verið afgreidd af stjórn Framsýnar eða viðeigandi stjórn, ráði eða nefnd og ekki eru merkt sérstaklega sem „trúnaðarmál“ er stjórn Framsýnar, viðeigandi stjórn, ráði eða nefnd heimilt að birta opinberlega enda varði þau ekki einkamálefni sem njóta persónuverndar sbr. 2. gein.
Gögn sem lögð eru fyrir stjórn sjúkrasjóðs og siðanefnd félagsins og sem varða einstaklingsmálefni skulu ávalt vera trúnaðargögn. Fundargerðir aðalstjórnar, stjórna deilda og trúnaðarmannaráðs skulu ávalt vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og heimilt er að birta þau gögn s.s. í fréttabréfi og á heimasíðu félagsins.
7. Boðsferðir
Fulltrúum Framsýnar er óheimilt að þiggja boðsferðir/kynnisferðir frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra eða erindum fyrir félagið nema talið sé að slíkar ferðir hafi upplýsingagildi fyrir félagið og starfsemi þess eða geri þá hæfari til að sinna hlutverki sínu. Stjórn félagsins skal fjalla um boðs- og kynnisferðirnar og ákveða hvort rétt sé að fulltrúi félagsins taki þátt í ferðinni eða ekki.
8. Gjafir
Fulltrúum Framsýnar er óheimilt að þiggja gjafir frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra eða erindum fyrir félagið. Þeim er þó heimilt að taka við gjöfum sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan hóflegra marka. Fulltrúum Framsýnar er óheimilt að hafa áhrif á hvert félagið beinir viðskiptum sínum. Þeim er einnig óheimilt að hafa milligöngu um viðskipti við aðila er líta má á sem tengdan þeim sjálfum. Með tengdum aðila er t.d. átt við fyrirtæki í eigu þeirra sjálfra að fullu eða að hluta, maka eða barna og tengdabarna og/eða annarra náinna skyldmenna. Fulltrúum Framsýnar sem eru félagar í óskyldum félagasamtökum er óheimilt að beita sér fyrir því að Framsýn veiti viðkomandi félagasamtökum fjárstuðning eða beini viðskiptum sínum sérstaklega til viðkomandi samtaka. Ákvæði þetta gildir um hvers kyns fjársafnanir og samskot.
9. Virðing
Fulltrúar Framsýnar skulu vera félagi sínu til sóma og gæta þess að virða þær reglur sem gilda á fundum, þingum og öðrum ráðstefnum sem Framsýn stendur að, eða á aðild að í gegnum landssambönd. Þetta á einnig við um náms- og kynnisferðir sem félagið stendur fyrir á hverjum tíma sem og aðrar ferðir á vegum félagsins sem falla undir starfsemi þess.
10. Jafnrétti
Fulltrúar Framsýnar skulu hafa jafnrétti að leiðarljósi og vinna gegn fordómum og mismunun, t.d. vegna kyns, þjóðernis, trúarbragða, aldurs, kynferðis, skoðana, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
11. Siðanefnd
Siðanefnd skal skipuð þremur fulltrúum félagsins kjörnum á aðalfundi, að auki skal velja þrjá varamenn. Skal skipunartímabil nefndarinnar vera það sama og stjórnar og trúnaðarmannaráðs, það er tvö ár. Nefndin getur kallað til lögmann félagsins sem verði nefndinni til ráðgjafar.
12. Hlutverk siðanefndar
Hlutverk siðanefndar verður að leggja mat á hvort tiltekin atvik eða kringumstæður séu brot á siðareglum félagsins. Sjá frekar hlutverk og verklag í meðfylgjandi starfsreglum siðanefndar.
13. Viðurlög við brotum á siðareglum
Teljist fulltrúi Framsýnar hafa brotið siðareglur félagsins vísast á siðanefnd að koma með tillögu til stjórnar um viðbrögð við brotinu.
14. Málskotsréttur
Viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi skal fá tækifæri til að standa fyrir máli sínu og svigrúm til að afla gagna ef þörf er á, áður en siðanefnd félagsins skilar skýrslu um málið. Samhliða því sem siðanefnd leggur skýrslu sína fyrir stjórn félagsins skal viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi fá að skila inn greinagerð sinni og andsvari við skýrslu siðanefndar til stjórnar Framsýnar. Nánari skilgreiningu má sjá í meðfylgjandi fylgiskali. Teljist fulltrúi í stjórn Framsýnar hafa brotið siðareglur félagsins víkur hann af fundi á meðan fjallað er um málið. Ef ágreiningur er um niðurstöðu stjórnar skal málinu vísað í sérstakan gerðadóm skipaðan af ASÍ.
15. Breytingar á reglugerðinni
Reglum þessum er aðeins hægt að breyta á aðalfundi félagsins á hverjum tíma enda hafi þær verið auglýstar í fundarboði.
Fylgiskjal með siðareglum Framsýnar
Siðanefnd hefur það hlutverk með höndum að úrskurða um kærur sem henni berast um brot á siðareglum Framsýnar.
Kærur til siðanefndar skulu vera skriflegar og berast formanni Siðanefndar Framsýnar, Garðarsbraut 26, 640 Húsavík. Mikilvægt er að nákvæmlega sé tilgreint hvers kæran nær til og við hvaða grein siðareglnanna meint brot á við.
Formaður kallar aðra fulltrúa siðanefndar til fundar þegar kæra berst, ásamt því að láta þeim í té þau gögn sem borist hafa.
Siðanefnd tekur afstöðu til þess hvort einhver fulltrúa nefndarinnar sé vanhæfur til þess að úrskurða í máli sem henni berst. Reynist svo vera, skal kallaður til varamaður.
Við upphaf málsmeðferðar kannar siðanefnd hvort þeim kröfum sem siðareglur gera til kærenda hafi verið fullnægt. Sé svo ekki skal kæru vísað frá og kæranda skýrt skriflega frá orsökum frávísunar.
Siðanefnd skal bjóða báðum aðilum máls að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar. Hún skal einnig óska eftir skriflegri greinargerð beggja aðilja.
Siðanefnd ákveður hverjir aðrir skulu koma fyrir nefndina, og hvaða viðbótargagna skuli aflað.
Kæranda er heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en siðanefnd hefur undirritað úrskurð sinn.
Siðanefnd kveður upp rökstuddan skriflegan úrskurð og birtir málsaðilum auk stjórnar félagsins.
Siðanefnd ritar fullskipuð undir úrskurði. Sératkvæði skulu birt með úrskurði meirihlutans.
Siðanefnd fer með gögn mála, önnur en kæru og úrskurð nefndarinnar, sem trúnaðarmál og fjallar ekki um einstök mál opinberlega.
Formaður siðanefndar er talsmaður hennar út á við.