Verkefnið Verslun í dreifbýli var þriggja ára samstarfsverkefni um málefni dreifbýlisverslana sjö þjóða á norðurslóðum; Íslands, Finnlands, Noregs, Færeyja, Norður – Írlands, Írlands og Skotlands. Tilgangurinn með verkefninu var að renna styrkari stoðum undir rekstur dreifbýlisverslana og finna lausnir sem henta hverri verslun meðal annars með því að greina hverjir séu bestu valkostirnir til að auka arðsemi verslana í dreifbýli, auka gæði og fjölga þjónustuþáttum í dreifbýlisverslun. Heildarmarkmiðið er að bæta þjónustu og búsetugæði í litlum samfélögum með því að stuðla að því að dreifbýlisverslanir geti lifað, þróast og dafnað. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hélt utan um hóp þátttakenda af Norðausturlandi en af því svæði tóku 6 verslanir þátt. M.a. var unninn gátlisti um úttekt í verslunum, þar sem aðgengi og aðbúnaður er tekinn út. Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar hefur heimild til að nýta ofangreindan gátlista og hyggst heimsækja allar verslanir á félagssvæðinu í febrúar og mars. Við vonumst til að verslunareigendur og stjórnendur taki vel á móti fulltrúa okkar og nýti sér þetta tækifæri sem lið í innra gæðaeftirliti.