Formaður Framsýnar fór í vinnustaðaheimsóknir á Þórshöfn í vikunni. Að venju var mikið um að vera á staðnum, ekki síst við höfnina. Togarinn Suðurey VE 12 var að landa góðum afla eða um 60 til 70 tonnum af bolfiski. Aflinn fer að mestu til vinnslu hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn en hluti aflans fer á markað.
Bræðslan var ekki í gangi en heimamenn vonast til þess að loðna finnist á næstu dögum svo hægt verði að keyra bræðsluna í nokkra daga fyrir jól.
Suðurey VE í höfn á Þórshöfn.
Suðurey var með góðan afla. Löndunarmennirnir sögðu aflann vera um 70 tonn.
Það eru bara hörkutól í löndunarliðinu á Þórshöfn.
Það þarf líka hörkutól til að koma aflanum á markað. Hér má sjá Hall Hallgrímsson bílstjóra hjá Flytjanda á Húsavík sem var að ferma bílinn en bílstjórar á svæðinu hafa ekki verið öfundsverðir síðustu vikurnar vegna ófærðar og leiðinda í veðrinu.