Í síðustu viku var haldin fjölmenn vinnuverndarráðstefna á Grand Hótel í tilefni Evrópsku vinnuverndarvikunnar sem stendur yfir dagana 22.-26. október undir yfirskriftinni VINNUVERND – ALLIR VINNA. Ráðstefnugestir voru 110 úr margvíslegum geirum atvinnulífsins. Flutt voru fimm mjög áhugaverð erindi og viðurkenningar veittar fyrirtækjum sem eru til fyrirmyndar á sviði vinnuverndar. Tvö fyrirtæki voru tilnefnd fyrir Íslands hönd til að taka þátt í Evrópukeppni í vinnuvernd þar á meðal Reykfiskur á Húsavík sem jafnframt fékk viðurkenningu fyrir fyrirmyndar vinnuverndarstarf.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra veitti eftirfarandi fjórum fyrirtækjum viðurkenningar fyrir að vera til fyrirmyndar í vinnuverndarstarfi sínu og var þá sérstaklega horft til forystu stjórnenda og virkrar þátttöku starfsmanna í hinu kerfisbundna vinnuverndarstarfi.
- Landsvirkjun, Fljótsdalsstöð – 14 starfsmenn
- Reykfiskur á Húsavík – 25 starfsmenn
- Þjóðminjasafn Íslands – 55 starfsmenn
- Mannvit, verkfræðistofa – 400 starfsmenn
Evrópukeppni í vinnuvernd
Mannvit og Reykfiskur verða tilnefnd áfram fyrir hönd Íslands til að taka þátt í Evrópukeppni sem Ísland tekur nú þátt í fyrsta skipti fyrir framúrskarandi starfshætti og er þá sérstaklega horft til forystu stjórnenda og virkrar þátttöku starfsmanna vinnuverndarstarfinu. Úrslit í keppninni munu liggja fyrir í apríl 2013 og verður greint frá þeim um leið og þau verða ljós.
Fulltrúar þeirra fyrirtækja sem hlutu viðurkenningar ásamt velferðarráðherra og forstjóra Vinnueftirlitsins, f.v.Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, fulltrúar Mannvits (2), fulltrúar Reykfisks (2), fulltrúar Fljótsdalsstöðvar (2), fulltrúar Þjóðminjasafns Íslands (3) ásamt Eyjólfi Sæmundssyni forstjóra Vinnueftirlitsins. Það voru þau Sylvía Ægisdóttir og Jóhann Sævarsson sem tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Reykfisks.