Formaður Félags Málmiðnarmanna á Akureyri, Jóhann R. Sigurðsson, kom í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær til að kynna sér starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Jóhann tók við sem formaður á síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var í febrúar. Fyrir var Hákon Hákonarson formaður FMA. Jóhann sem er drengur góður átti góða stund með starfsmönnum stéttarfélaganna og skiptist hann á skoðunum við starfsmennina um verkalýðsmál og uppbyggingu stéttarfélaga á Íslandi. Hann lagði jafnframt áherslu á gott samstarf Félags Málmiðnarmanna og stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, það er Framsýnar og Þingiðnar. Þá er til skoðunar að fulltrúar frá nokkrum stéttarfélögunum á Akureyri komi í heimsókn til Framsýnar á næstu vikum. Jóhann hefur störf á skrifstofu málmiðnarmanna eftir helgina en hann hefur starfað sem verslunarstjóri Stillingar á Akureyri undanfarin ár. Jóhann er boðinn velkominn til starfa.