Þegar starfsemi, þjónusta og rekstur Framsýnar er skoðaður er ljóst að félagið er mjög vel rekið og það veitir félagsmönnum sínum almennt mjög góða þjónustu og réttindi. Í raun er ekki hægt að benda á margt sem hægt er að bæta segir m.a. í úttekt Starfsgreinasambands Íslands um starfsemi Framsýnar sem var að berast félaginu. Innan Framsýnar eru rúmlega 2000 félagsmenn.
Í lok síðasta árs ákvað framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) að gera könnun hjá aðildarfélögum á þeirri þjónustu sem þau veita félagsmönnum sínum. Í sumar var svo gerð greining á ársreikningum félaganna til að meta fjárhagstöðu og rekstur. Á fundi framkvæmdastjórnar sambandsins í vor var ákveðið að fylgja könnuninni eftir, með því að upplýsa stjórnarmenn aðildarfélaganna um stöðu síns félags í samanburði við önnur félög innan SGS. Það yrði gert með því að benda á það sem vel er gert í þjónustu og rekstri, sem og benda á þá þætti sem má bæta í starfseminni. Framsýn er aðili að Starfsgreinasambandinu en 19 stéttarfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.
Í úttektinni kemur fram að rekstur Framsýnar sé mjög góður og fjárhagsleg staða þess ein sú besta meðal aðildarfélaga SGS. Þá sé félagið með mjög öflugt félagslegt starf og réttindi félagsmanna í sjúkra- og orlofssjóði séu jafnframt til fyrirmyndar. Félagið standi sig mjög vel í upplýsinga- og fræðslumálum og haldi úti öflugustu heimasíðu stéttarfélags innan Alþýðusambands Íslands. Í úttektinni er lagt til að félagið opni sérstakan félagsmannavef þar sem félagsmenn gætu skráð sig inn til að fylgjast með persónulegum réttindum sínum og skrá sig fyrir þjónustu. Einnig er lagt til að félagið setji sér siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn. Þess ber að geta að þegar er hafin vinna hjá félaginu við að útbúa siðareglur og skoðað verður hvort ástæða sé til þess að gera sérstakan félagsmannavef. Þeirri vinnu verður lokið í haust. Þessi úttekt Starfsgreinasambandsins staðfestir enn frekar fyrri kannanir sem gerðar hafa verið og viðkoma starfsemi stéttarfélaga innan sambandsins að Framsýn er eitt öflugasta stéttarfélag landsins.
Það er full ástæða fyrir félagsmenn Framsýnar að brosa eftir úttekt Starfsgreinasambands Íslands á starfsemi aðildarfélaga sambandsins. Framsýn kemur afar vel út úr úttektinni.