Alþýðusamband Íslands sá ástæðu til að gera könnun á viðhorfi Íslendinga til sameignlegrar launastefnu og hvort starfsfólk í útflutningsgreinum ætti að njóta góðrar afkomu í sjávarútvegi með sérstökum hækkunum til þeirra.
Að sjálfsögðu var passað upp á að spurningin væri villandi, væntanlega til að fá fram hentuga niðurstöðu sem tókst með miklum ágætum því um 94% svarenda lýstu yfir stuðningi við samræmda launastefnu, meðan aðeins 6% svarenda vildi sjá sérstakar hækkanir til starfsfólks í útflutningsgreinum, en þar hefur verið bullandi góð afkoma.
Af hverju sambandið taldi ástæðu til að eyða peningum í könnun nú er ekki almennt vitað þrátt fyrir að sá sem þetta skrifar telji sig vita ástæðuna. Það hefur verið verulegur ágreiningur innan verkalýðshreyfingarinnar um hvaða launastefnu eigi að taka upp í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.
Sum stéttarfélög hafa lagt áherslu á skammtímasamning með sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa og að starfsfólk í útflutningsgreinunum fái að njóta góðrar afkomu greinarinnar. Lögð hefur verið áhersla á að lægstu launin yrðu ekki lægri en kr. 200.000 á mánuði frá undirskrift samningsins. Framsýn, stéttarfélag styður þá leið.
Önnur stéttarfélög telja þessa leið ekki færa. Þess í stað vilja þau semja á hógværum nótum til þriggja ára og viðhalda þannig láglaunastefnu í landinu. Dragbítarnir í verkalýðshreyfingunni leggjast sem sagt gegn hækkun lægstu launa í kr. 200.000,- strax. Því markmiði skuli náð eftir þrjú ár. Þetta er mikill metnaður fyrir hönd verkafólks eins og verkamaðurinn orðaði það sem hafði samband við mig um helgina. Þá hafa þeir lagst gegn hugmyndafræðinni um sérstakar hækkanir til starfsmanna í útflutningsgreinum. Þess vegna lögðust forsvarsmenn þeirra við skriftir og sömdu spurningar með það að markmiði að svörin yrðu þeim hliðholl. Spurt var:
Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar?
Fólk hafði ekki hugmynd um hverju það var að svara. Það hefur ekki formlega verið lögð fram tillaga um form launahækkana sem þessi spurning ætti að styðjast við. Var fólki gerð grein fyrir innihaldi spurningarinnar, því hefur ekki verið svarað. Þær vangaveltur sem hér koma á eftir eru hins vegar byggðar á þeim hugmyndum/útfærslum sem ræddar hafa verið milli samningsaðila í húsnæði ríkissáttasemjara sem væntanlega eiga eftir að breytast töluvert fram að undirskrift samningsins.
Þegar spurningu ASÍ er svarað er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi atriði í huga: Sambærilegar launahækkanir fyrir alla, samkvæmt þessari spurningu mæti ætla að allir fengju sömu krónutöluhækkun. Svokölluð „jafnlaunastefna“ sem er á bak við þessa spurningu felur það hins vegar ekki í sér. Þar er talað um að þeir sem eru með laun innan við kr. 300 þúsund á mánuði fái krónutöluhækkun en aðrir þar fyrir ofan fái prósentuhækkun. Þannig fá þeir sem eru fyrir ofan kr. 300 þúsund mun hærri krónutöluhækkun en þeir sem eru undir því viðmiði. Orðið sambærilegt í þessari spurningu er því mjög villandi svo ekki sé meira sagt og því er full ástæða til að gagnrýna þessa framsetningu.
Fyrirtæki í útflutningsgeiranum skila nú flest góðum hagnaði vegna stöðu krónunnar og hafa því loks svigrúm til að hækka laun hjá sínu starfsfólki. Í góðærinu, þegar gengi krónunnar var óeðlilega hátt og gerði útflutningsgreinunum erfitt fyrir, var samið um að hækka ekki bónus/kaupauka í fiskvinnslu samhliða almennum launahækkunum til að bregðast við erfiðri stöðu útflutningsfyrirtækjanna. Þeir sem starfa í útflutningsgeiranum sátu því eftir í launaþróun á meðan aðrir hópar gátu sótt mun meiri hækkanir. Þessir hópar urðu því af launahækkunum þegar gengi krónunnar var hátt; þeir liðu fyrir gengi krónunnar.
Ef marka má fréttir um könnunina á heimasíðu ASÍ fengu allir þeir sem lentu í úrtakinu og voru í stéttarfélögum að svara þessari spurningu hvort heldur þeir voru í félögun innan ASÍ eða annarra sambanda. Merkilegt nokk, en stuðlar að heppilegri niðurstöðu fyrir ákveðna aðila. Hefði ekki verið eðlilegra að þeir sem starfa eftir kjarasamningnum hefðu bara verið spurðir, ekki þeir sem starfa eftir öðrum kjarasamningum?
Hver hefði niðurstaðan orðið ef spurt hefði verið. Ertu sammála því að verkafólk fái 9.000 króna hækkun á mánuði og þeir sem eru með laun yfir milljón á mánuði fái tugir þúsunda í hækkun? Getur verið að niðurstaðan hefði orðið sú að 94% svarenda hefði hafnað þessari leið. Ég efast ekki um það.
Á fundi sem ég var á þar sem þessar hugmyndir voru kynntar af forsvarsmönnum ASÍ kom fram að menn væru að horfa á þriggja ára samning með blandaðri leið, krónutölu- og prósentuleið. Launþegar með innan við kr. 300.000,- á mánuði fengju um 9.000 króna hækkun á sín mánaðarlaun. Aðrir fengju 3,5% hækkun á sín laun. Hvað þýðir þessi launastefna? Lægstu laun samkvæmt núgildandi kjarasamningum eru 157.752,- á mánuði. Þau hækkuðu við þetta um kr. 9.000 og færu í 166.752,-á mánuði. Fiskvinnslukonan fengi einnig kr. 9.000 króna hækkun en hæsti taxti í fiskvinnslu er í dag kr. 174.500,- á mánuði. Hún kæmist við undirskrift í kr. 183.500,-. Forseti ASÍ sem er með tæplega eina milljón á mánuði í laun samkvæmt tekjublöðum fengi um 35.000 króna hækkun á mánuði og nokkrir félagar hans í miðstjórn ASÍ sem verið hafa í fréttum fyrir ýmislegt og voru með um 1.3 milljónir laun á mánuði á síðasta ári samkvæmt upplýsingum úr tekjublöðum fengju um 45.000 króna hækkun á mánuði m.v. 3,5% launahækkun. Þar fyrir ofan væri síðan framkvæmdastjóri SA sem kemur til með að skrifa undir kjarasamninginn fh. Samtaka atvinnulífsins. Hann væri væntanlega að fá um 60.000 króna hækkun á mánuði sé tekið mið af upplýsingum sem fram koma í útgefnum tekjublöðum frá síðasta ári.
Drögum þetta saman, samkvæmt samræmdri launastefnu sem verið hefur til umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar fengju menn ekki sambærilegar krónutöluhækkanir út úr samningnum eins og ætla má af spurningunni sem lögð var fyrir þátttakendurna í könnuninni.
a) Verkamaðurinn með 157.752,- fengi 9.000 króna hækkun á mánuði.
b) Fiskvinnslumaðurinn eins og aðrir með laun innan við 300.000,- fengi sömuleiðis 9.000 króna hækkun á mánuði.
c) Einstaklingur með milljón á mánuði fengi 35.000 króna launahækkun á mánuði m.v. þær hugmyndir sem uppi eru um að þeir sem eru með hærri laun á mánuði en kr. 300.000,- fái 3,5% hækkun.
d) Einstaklingur með 1,3 milljónir á mánuði fengi 45.000 króna hækkun á mánuði.
e) Einstaklingur með 1,7 milljónir á mánuði fengi 60.000 króna hækkun á mánuði.
Rétt er að velta einni spurningu upp. Miðað við þessi dæmi, hver hefur mestu þörfina fyrir launahækkanir? Mín skoðun er skýr, fólkið sem fellur undir a og b lið. Þessari skoðun eru menn ekki sammála innan verkalýðshreyfingarinnar því eins og staðan er í dag er góður meirihluti fyrir því að fara þessa leið óréttlætis.
Þetta er nú samræmda launastefnan sem um ræðir og samkvæmt skoðanakönnun ASÍ eru 94% þjóðarinnar sammála þessari aðferð. Eða getur verið að fólk hafi ekki skilið spurninguna enda var spurt hvort fólk væri meðfylgjandi sambærilegum hækkunum og því svarað með þessum hætti. Ég tel svo vera, því fólkið í landinu eru ekki fífl.
Það má hins vel vera að við sem stöndum og föllum með baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks, ekki þeirra sem vaða í peningum séum fífl. Í það minnsta notar varaforseti ASÍ þessi ósmekklegu orð á facebook þegar hún tjáir sig um þá sem varað hafa við þessari leið „Í hirð fjölmiðlanna fá fíflin ótrúlega áheyrn, meira segja á rás eitt!“ Tilefnið er niðurstaðan úr könnun ASÍ sem var skoðanasystkinum varaforsetans mjög hliðholl.
Aðalsteinn Á. Baldursson