Fulltrúar Framsýnar og Landssambands smábátaeigenda munu funda á morgun föstudag um kjarasamning fyrir smábátasjómenn á félagssvæði Framsýnar sem nær yfir þrjár hafnir, Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn. Fundurinn verður haldinn í Reykjavík í húsnæði Ríkissáttasemjara og hefst kl. 10:00, það er um leið og fulltrúar Framsýnar lenda í Reykjavík.
Að sögn Aðalsteins Árna Baldurssonar formanns Framsýnar eru miklar lýkur á að skrifað verði undir nýjan kjarasamning á morgun. Félagið hefur lengi barist fyrir því að gerður yrði kjarasamningur fyrir smábátasjómenn og nú virðist sem þeirri vinnu sé að ljúka með samningi. Nánari fréttir af gangi mála verður hægt að nálgast á heimasíðu stéttarfélaganna annað kvöld.