Laugardaginn 11. ágúst s.l. fór um 30 manna hópur frá stéttarfélögunum í sögu- og gönguferð um Fnjóskadal, Höfðahverfi og Fjörður á Flateyjarskaga. Stjórn og leiðsögn var í höndum heimamanna, þeirra Óskar Helgadóttur á Merki og Björns Ingólfssonar frá Dal við Grenivík.
Ferðin í Fjörður hófst á Grenivík (Höfðahverfi), en þaðan liggur tæplega 30 km. seinfarinn jeppavegur norður í Hvalvatnsfjörð. Á leiðinni var áð í skálanum í Gili, við Illagil. Hópurinn hélt síðan áfram ferð sinni norður í Hvalvatnsfjörð. Þegar hér var komið tók dalurinn að víkka og grösugar grundir tóku við af hrjóstrugra landslagi. Á móts við bæinn Tindriðastaði var fjalla rútunni lagt og gengið sem leið liggur vestur í Þorgeirsfjörð, með viðkomu í Þorgeirshöfða og Nikurtjörn. Hópurinn hreiðraði um sig í góðum skála Ferðafélags Fjörðunga á Þönglabakka í Þorgeirsfirði, en þar var lengi prestsetur. Þar fékk hópurinn sér góða máltíð og naut einstakrar náttúrufegurðar og veðurblíðu.
Segja má að víða liggi leiðir frá Þönglabakka, því halda má áfram austur yfir í Keflavík og síðan suður Látrastönd til Grenivíkur. Einnig eru leiðir austur úr Hvalvatnsfirði í Flateyjardal frá Hvalvatnsfirði, m.a. um Skriður í Bjarnarfjalli.
Á leið norður í Fjörður og á heimleiðinni var áð reglulega. Björn er hafsjór af fróðleik um menn, málefni og náttúru svæðisins og gaf ekkert eftir í viðleitni sinni að fræða, upplýsa og skýra það sem fyrir augu bar og sagan hafði að geyma. Í Fjörðum var blómleg byggð sem fór minnkandi í upphafi 20. aldar og lagðist síðan af árið 1944, þegar síðustu fjölskyldurnar fluttu í burtu.
Áætlun ferðalanga, í þetta sinn, var að fara sömu leið heim, austur í Hvalvatnsfjörð og suður dalinn niður í Höfðahverfi og heim til Húsavíkur. Ánægðir og þreyttir ferðalangar komu til Húsavíkur upp úr kl. 22:00 um kvöldið eftir rúmlega 14 klst. ferðalag og náttúruveislu í Fjörðum. Hér fylgja nokkrar myndir úr ferðinni.
Hópurinn leggur af stað í göngu úr Hvalvatnsfirði yfir í Þorgeirsfjörð. Göngubrúin er við Tindriðastaði.
Hér virðir Þráinn Þráinsson fyrir sér náttúrufegurðina í Hvalvatnsfirði.
Hér má sjá skála Ferðafélags Fjörðunga á Þönglabakka í Þorgeirsfirði þar sem hópurinn fékk sér að borða og hvíldist fyrir heimferð.
Björn leiðsögumaður stoppaði reglulega og fræddi hópinn um náttúruna og söguna. Þarna er hópurinn staddur í kirkjugarðinum á Þönglabakka.
Hér er svo hópurinn samankominn í Hvalvatnsfirði í lok vel heppnaðrar gönguferðar.