Formaður Framsýnar átti vinsamlegan fund í dag með starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum. Á fundinum var farið yfir nokkur málefni er varða starfsmenn. Rúmlega 20 starfsmenn starfa í Vatnajökulsþjóðgarði, það er á norðursvæðinu. Fjölmargir hafa heimsótt þjóðgarðinn í sumar. Áætlað er að hátt í 150 þúsund manns hafi komið að Dettifossi í sumar og þá hafa um 30 þúsund manns komið í Gljúfrastofu á sama tímabili og yfir 10 þúsund gestir hafa gist á tjaldsvæðinu. Ekki þarf að koma á óvart sá mikli áhugi sem er fyrir svæðinu enda eitt fallegasta náttúrusvæði landsins.