Í nokkur ár hefur verið í gangi umræða um hvort rétt væri að skylda eigendur báta minni en 12 m að hafa björgunarbúninga um borð bátum sínum. Frá 1994 hafa björgunarbúningar verið skyldubúnaður í öllum skipum 12 m að lengd og lengri. Í sömu reglum er skylt að hafa vinnufatnað, sem búinn er floti, í bátum styttri en 12 m sem gerðir eru út í atvinnuskyni. Landssamband smábátaeigenda hefur hvatt félagsmenn sína að hafa björgunarbúninga um borð en lagst gegn því að það væri skyldað með lögum. Bent hefur verið á að nokkurt rými þyrfti til að klæða sig í búninginn sem væri ekki fyrir hendi í öllum smábátum, takmarkað pláss til að geyma þá og þeir gætu jafnvel veitt falska öryggistilfinningu þegar ákvörðun þyrfti að taka á örskotsstundu um hvaða björgunartæki ætti að nota. Slys á smábátum gerast jú oftast ógnarhratt og er þá hver sekúndan sem líður dýrmæt við að meta aðstæður og bregðast rétt við. Eins og að framan sagði hafa þessi mál verið í stöðugri umræðu. 2009 náði hún inn í sali Alþingis og nú aftur í febrúar síðast liðnum þar sem þess var krafist að björgunarbúningar yrðu settir í alla báta sem notaðir væru í atvinnuskyni. Þá ítrekaði meirihluti Siglingaráðs áherslur sinar í málinu um að reglur um björgunarbúninga yrðu samræmdar. Í kjölfar umræðunnar á Alþingi, samþykktar Siglingaráðs og minnisblaðs Siglingastofnunar Íslands frá 2004, tók innanríkisráðherra málið upp innan síns ráðuneytis og í hönd fóru fundir ráðuneytismanna, fulltrúa LS og sérfræðinga Siglingastofnunar. Niðurstaða er nú fengin og hefur Innanríkisráðuneytið gefið út reglur sem kveða á um að björgunarbúningar skuli vera í öllum bátum 8 metrum og stærri frá og með 1. janúar 2013. Sama regla tekur svo gildi ári síðar, 1. janúar 2014 fyrir þá báta sem notaðir eru í atvinnuskyni og eru styttri en 8 metrar.
Sjá nánar reglur nr 519/2012.
(smabatar.is)