Tveir sjómenn voru heiðraðir í dag við hátíðlega athöfn á Húsavík. Að þessu sinni voru heiðraðir þeir Guðmundur Aðalbjörn Hólmgeirsson sem ættaður er úr Flatey á Skjálfanda og Hreiðar Olgeirsson sem kenndur er við Skálabrekku á Húsavík. Þeir eiga það sameignlegt að hafa stundað sjóinn lengi, bæði sem sjómenn og eins sem útgerðarmenn. Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrunina. Hér má lesa umsögn um Guðmund og Hreiðar sem Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar flutti í dag við athöfnina.
Sjómennirnir Hreiðar Olgeirsson og Guðmundur Aðalbjörn Hólmgeirsson voru heiðraðir í dag.
Hreiðar Olgeirsson
Hreiðar Olgeirsson fæddist á Húsavík þann 26. maí 1943. Hann er sonur hjónanna Olgeirs Sigurgeirssonar og Ragnheiðar Jónasdóttur úr Skálbrekku.
Hreiðar er kvæntur Höllu Hallgrímsdóttur frá Sultum í Kelduhverfi og eiga þau fimm börn, átta barnabörn og eitt barnabarnabarn. Halla hefur alla tíð staðið eins og klettur við hliðina á Hreiðari í gegnum sjómennskuna og útgerðina.
Það verður ekki sagt um Hreiðar að hann sé mikill stríðsmaður enda mikið gæðablóð. En hann er einn af fáum Húsvíkingum sem tekið hafa þátt í stríði þar sem ekkert var gefið eftir, enda mikið í húfi.
Hreiðar var nefnilega fyrst munstraður í skipspláss þegar hann réð sig á varðskipið Þór í endaðan að apríl 1959, þá 15 ára gamall. Þar var hann um borð með þeim fræga skipstjóra Eiríki Kristófersyni. Á þessum árum vorum við Íslendingar að berjast fyrir 12 mílna landhelgi við litla hrifningu bretta sem svöruðu okkur með hervaldi á sjó. Hreiðar er enn að, enda síungur, en þessa dagana er hins vegar verið að rífa gamla skipsplássið hans, varðskipið Þór, niður í brotajárn suður með sjó.
Sumarið 1959 réð hann sig á Fram AK 58 á síldveiðar og um haustið á Helgu ÞH 7 frá Húsavík sem gerð var út á net undir skipstjórn Maríusar Héðinssonar. Um veturinn 1960 fór hann á Njörð ÞH 44 með Sigurbirni Kristjánssyni skipstjóra. Vorið eftir fór hann aftur á Helgu ÞH 7, þá með Pálma Héðinssyni skipstjóra og var þar um borð út það ár og vetrarvertíðina 1961.
Þann 1. mars 1961 stofna þeir Skálabrekkubræður, Hreiðar og Sigurður Valdimar til útgerðar ásamt föður sínum og kaupa áður nefndan Njörð af Sigurbirni Kristjánssyni og félögum. Njörður var smíðaður úr eik á Akureyri 1925 og mældist 10 tonn að stærð.
Upp frá því starfaði Hreiðar við útgerð þeirra feðga að undanskildum árunum 1966-1968 er hann var með Sigurði Sigurðssyni á Dagfara ÞH 70 við síldveiðar auk vetrarvertíðar frá Sandgerði.
Njörð gerðu þeir út í rúm tvö ár en skiptu þá á honum og tuttugu og tveggja tonna báti, Hallsteini frá Akureyri. Hann var 22 tonn að stærð, smíðaður í Danmörku 1934 og fékk nafnið Kristbjörg ÞH 44.
Hann var seldur vorið 1969 til Sandgerðis en skömmu áður höfðu þeir feðgar keypt 37 tonna bát frá Ólafsvík, Kristjón Jónsson SH 77 smíðaður í Stykkishólmi. Hann var í eigu hlutafélagsins Korra, sem þeir keyptu með og fluttu til Húsavíkur, og fékk nafnið Kristbjörg ÞH 44.
Í ársbyrjun 1975 var nafni bátsins breytt í Kristbjörg II ÞH 244 en þá átti Korri hf. nýjan 45 tonna bát í smíðum í Stykkishólmi. Sá bátur, sem kom til Húsavíkur í mars það ár fékk nafnið Kristbjörg ÞH 44.
Hreiðar var á nýja bátnum með Sigurði bróður sínum í nokkra mánuði áður en hann tók við skipsstjórn á Kristbjörgu II. Hann tók síðan við Kristbjörgu ÞH 44 í ársbyrjun 1980 þegar Korri hf. kaupir 138 tonna stálbát sem fékk nafnið Geiri Péturs ÞH 344. Kristbjörg II var þá seld bræðrum hans, þeim Agli og Aðalgeir sem nefndu hann Skálaberg ÞH 244. Sumarið 1987 er Geiri Péturs ÞH 344 seldur og nýtt 182 tonna togskip keypt í hans stað frá Noregi.
Hreiðar er með Kristbjörgina allt til síðla árs 1991 er Korri hf. kaupir 187 tonna stálbát sunnan úr Vogum sem fær nafnið Kristbjörg II ÞH 244 og síðar Kristbjörg ÞH 44 eftir að eikarbáturinn var seldur Höfða hf. á Húsavík.
Árið 1994 urðu þáttaskil í rekstri Korra hf. þegar fyrirtækinu var skipt upp. Sigurður stofnaði ásamt fjölskyldu sinni nýtt hlutafélag og keypti Geira Péturs ÞH 344 út úr Korra. Hreiðar og Jón bróðir hans voru áfram eigendur að Korra hf. ásamt föður þeirra og gerðu Kristbjörgina út til ársins 1997. Í sumarbyrjun það ár kaupir Geiri Péturs hf. Korra hf. og þeir feðgar hætta útgerð. Þar með lauk Hreiðar skipstjóraferli sínum á fiskiskipum sem staðið hafði yfir í 22 ár en sjómannsferillinn var þá orðinn 38 ár.
Reyndar keypti hann sér sex tonna plastbát sem hann nefndi Korra ÞH 444 og gerði út á þorskanet vorið 2001 en seldi hann síðar og á í dag skemmtibátinn Geira litla sem hann bregður sér stundum á út á flóann til að ná sér í soðið. Vorið 2002 tók hann eina grásleppuvertíð með Heimi Bessasyni. Þá ber þess að geta að Hreiðar sótti tveggja ára skipstjórnarnámskeið sem Framhaldsskólinn á Húsavík hafði umsjón með í gegnum Stýrimannaskólann á árunum 1985-86.
Hreiðar hefur alla tíð verið mikil veiðimaður og fengsæl skipstjóri. En nú ber svo við að hann er hættur veiðum. Þess í stað starfar hann hjá Norðursiglingu við að sína ferðamönnum lífríkið á Skjálfanda, sérstaklega hvali sem kunna því vel að láta gamla veiðimenn sigla í kringum sig í friðsamlegum tilgangi. Hjá Norðursiglingu hefur Hreiðar starfað frá árinu 2002 sem skipstjóri auk þess að sinna viðhaldsvinnu utan hvalaskoðunartímans.
Guðmundur A. Hólmgeirsson
Guðmundur Aðalbjörn Hólmgersson fæddist í Flatey á Skjálfanda 14. október 1939 þar sem hann ólst upp til unglingsaldurs en hann fermdist í Húsavíkurkirkju, enda eina fermingarbarnið í Flatey þar sem Alli átti ekki jafnaldra í eyjunni. Hann er sonur hjónanna, Sigríðar Sigurbjörnsdóttur frá Vargsnesi og Hólmgeirs Árnasonar frá Knarrareyri á Flateyjardal.
Alli sem lengi hefur verið búsettur á Húsavík er kvæntur Helgu Jónínu Stefánsdóttur frá Húsavík. Saman eiga þau þrjú börn og sex barnabörn. Þess má geta að Alli og Helga Nína eiga um þessar mundir 45 ára brúðkaupsafmæli og óskum við þeim að sjálfsögðu til hamingju með það.
Alli stóð vart upp úr skónum þegar hann fór að leggja lið sína í beitningaskúrana í Flatey til að létta undir með föður sínum sem gerði út frá eyjunni. Á þeim tíma var ekki búið að setja lög og reglur um að börn og unglingar megi helst ekki gera handtak fyrr en þau eru orðin 18 ára gömul eins og við þekkjum til í dag. Hér á árum áður þurftu allir að leggja sitt að mörkum til að dæmið gengi upp, það gat enginn skorast undan vinnu.
Greinilegt var að Alli hafði erft sjómannsblóðið frá föður sínum því sjómennskan heillaði hann snemma. Sjö ára gamall var hann farinn að grípa í beitingu, það er að beita og stokka upp bjóð. Nokkru síðar eða þegar Alli er um 12 ára gamall fór hann að róa með föður sínum og bræðrum á Sævari TH 215 og síðar á Svani ÞH 100. Gert var út á línu og handfæri en handfæraveiðar voru aðallega stundaðar frá Flatey á þessum tíma. Þegar komið var í land, oft eftir fengsæla róðra, var aflinn tekinn og saltaður til útflutnings. Enda mikið í húfi að skapa gjaldeyri og tekjur fyrir fjölskyldurnar í Flatey og reyndar þjóðarbúið líka.
Á unglinsárum gekk Alli í Laugaskóla þar sem hann útskrifaðist sem gagnfræðingur áður en hann fór suður á vetrarvertíðir. Hann var á bátum sem gerðir voru út frá Reykjavík og Keflavík, þeim Guðmundi Þórðarsyni sem var um 200 tonna stálskip og Gylfa II frá Akureyri sem var 65 tonna eikarbátur. Hann var annar vélstjóri enda þá búinn að ná sér í slík réttindi.
Alli útskrifaðist frá stýrimannaskólanum 1963 en hann stundaði einnig nám á Bifröst í tvö ár. Með námi stundaði hann sjóinn á sumrin og var m.a. á síldarbátnum Frey frá Súgandafirði sem fyrsti vélstjóri auk þess að vera á Svani TH 100 frá Húsavík sem var átta tonna bátur í eigu föður hans. Í áhöfninni voru þrír menn sem fiskuðu og söltuðu um borð enda mikið upp úr því að hafa á þeim tíma.
Sumarið 1963 var Alli á Andvara ÞH 81 sem var 16 tonna eikarbátur gerður út á ufsanót frá Húsavík. Næstu tvö árin var hann á Héðni ÞH á síld. Alli leisti af sem stýrimaður á Héðni.
Árið 1969 verða ákveðin þáttaskil í lífi Alla þar sem hann kveður sjóinn og tekur að sér að vera bókari hjá Húsavíkurkaupstað enda með góða menntun frá Bifröst. En sjórinn og útgerð heillaði og Alli stoppaði stutt við hjá Húsavíkurbæ eða í aðeins tvö ár.
Árið 1970 ræðst hann í að láta smíða sinn fyrsta bát í Bátalóni í Hafnarfirði en fjölskyldan hefur alla tíð staðið vel saman í þeim rekstri sem hún hefur stundað á hverjum tíma. Báturinn, sem var 11 tonn að stærð, fékk nafnið Aron ÞH 105. Aron kom nýr til heimahafnar á afmælisdeigi föður hans, 27. mars 1971.
Frá þessum tíma hefur Alli og fjölskylda verið í útgerð frá Húsavík og átt nokkra báta með sama nafni og númeri. Bátarnir hafa verið af mismunandi stærðum, allt frá litlum dekkbátum upp í 120 tonna stálskip sem smíðað var í Svíþjóð. Fjölskyldan hefur gert út á rækju, línu, fiskitroll, snurvoð, grásleppu, net og handfæri. Alli er að sjálfsögðu ekki hættur en fjölskyldufyrirtækið Knarrareyri gerir í dag út tvo dekkbáta Aron ÞH 105 og Sædísi ÞH 305. Þess má geta að Alli var að ljúka grásleppuvertíð í sumarbyrjun. Útgerðarsaga Guðmundar A. Hólmgeirssonar og fjölskyldu hefur alla tíð verið mjög farsæl og verður vonandi svo áfram um ókomna tíð.