Fyrir helgina leitaði Framsýn enn og aftur til þingmanna kjördæmisins með beiðni um að þeir komi í lið með heimamönnum að tryggja áætlunar- og sjúkraflug til Húsavíkur. Jafnframt verði tryggt fjármagn í viðhald á flugvellinum og flugstöðvarbyggingunni sem liggur undir skemmdum.
Bréfið er á þessa leið frá formanni Framsýnar:
„Framsýn hefur lengi barist fyrir flugsamgöngum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Því miður liggja þær niðri um þessar mundir sem er miður. Ein af forsendum þess að takist að efla atvinnulífið í Þingeyjarsýslum frekar á næstu árum eru öruggar flugsamgöngur. Liður í því er að viðhalda Húsavíkurflugvelli sem og byggingum sem tengjast samgöngum um völlinn. Vitað er að stjórnvöld eru að styðja við flugsamgöngur milli flugvalla á Íslandi sem óþarfi er að tíunda frekar enda liggur fyrir hvaða flugvellir þetta eru, Húsavíkurflugvöllur er ekki þar á meðal. Nú ber svo við samkvæmt eftirfarandi frétt: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2026/01/24/hefja_utbod_a_isafjardarflugi/ er Vegagerðin að hefja útboð á á áætlunarflugi á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Um er að ræða sérleyfissamning en stefnt er að samningstíma til fjögurra ára, frá 1. september 2026 til og með 31. ágúst 2030, með möguleika á framlengingu upp á eitt ár. Hvað með Húsavík, hafa þingmenn kjördæmisins barist fyrir því að Vegagerðin með stuðningi frá stjórnvöldum bjóði út flug til Húsavíkur? Svar óskast. Án efa eru mikil samleiðaraáhrif því fylgjandi að bjóða þessar tvær flugleiðir út í einu.
Þá er full ástæða fyrir okkur heimamenn að hafa áhyggjur af viðhaldsfé til flugvalla sem sjúkraflugið veltur meðal annars á. Ég gef mér að sveitarstjórn Norðurþings muni kalla eftir upplýsingum frá Isavia varðandi viðhaldsfé til flugvalla. Ég efast reyndar um að fjárveitingar síðustu ára hafi skilað sér til viðhalds Húsavíkurflugvallar, fjármagn sem er eyrnamerkt flugvellinum til viðhalds og endurbóta. Fjármagnið hafi farið í aðra flugvelli, en það mun vonandi skýrast á allra næstu dögum. Tryggja þarf að fjárveitingar skili sér í áætluð viðhaldsverkefni sem og fjármagn til frekara viðhalds á flugvöllum landsins verði tryggt. Hvað fjárveitingarnar varðar tek ég undir áhyggjur Njáls Trausta sem koma fram í neðangreindri færslu hjá þingmanninum þar sem talað er um að einungis um 60 milljónir eigi að fara til viðhalds minni flugvalla landsins. Ég hvet þingmenn kjördæmisins til að huga að þessu og tryggja m.a. viðhaldsfé til Húsavíkurflugvallar. Svo það sé sagt, þá hafa Þingeyingar miklar áhyggjur varðandi sjúkraflugið, það er að það muni líkt og áætlunarflugið leggjast af enda verði ekki brugðist við stöðunni.
Ég gef mér að þið takið þessum pósti alvarlega og komið í lið með okkur hvað það varðar að tryggja sjúkra- og áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll sem og fjárveitingar til viðhalds flugvallarins og flugstöðvarinnar. Nú er ekki í boði að sitja hjá kæru þingmenn. Endilega bjallið ef það er eitthvað sem er óljóst í póstinum. Síðan er alltaf gott kaffi í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna ef þið eigið leið um Húsavík.“
Fh. Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson formaður
