Félagsmenn Framsýnar sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélögum á síðasta ári eiga rétt á greiðslum úr félagsmannasjóði samningsaðila, það er Sambands ísl. sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands um næstu mánaðamót, það er 1. febrúar 2026. Framsýn á aðild að þessum kjarasamningi fh. félagsmanna sem starfa hjá Þingeyjarsveit og Norðurþingi.
Um 500 félagsmenn innan Framsýnar munu fá 44. milljónir í greiðslur úr sjóðunum um mánaðarmótin. Framsýn sér um að greiða hlutaðeigandi félagsmönnum inneign í sjóðnum.
Skorað er á félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum að fylgjast með því hvort greiðslurnar berist þeim um mánaðamótin. Því miður vantar okkur reikningsnúmer hjá um 50 félagsmönnum. Þeir hinir sömu eru beðnir um að koma þessum upplýsingum til Skrifstofu stéttarfélaganna svo hægt verði að greiða þeim út úr félagsmannasjóði.
Í kjarasamningi Sambands ísl. sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands er eftirfarandi tekið fram í gr. 13.8.
13.8 Félagsmannasjóður:
„Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 2,2% af heildarlaunum félagsmanna. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 1. febrúar ár hvert samkvæmt stofnskrá sjóðsins. Gjaldið var áður 1,5% en er 2,2% frá 1. apríl 2024.“
Framsýn stéttarfélag á aðild að sjóðnum og ber að standa skil á þessum greiðslum til félagsmanna sem starfa eftir þessum samningi 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Framsýn hefur séð um að halda utan um Félagsmannasjóðinn fh. samningsaðila á félagssvæðinu.
Forsenda þess að hægt sé að greiða úr sjóðnum til viðkomandi félagsmanna er að Framsýn hafi á hverjum tíma réttar bankaupplýsingar félagsmanna sem rétt eiga á greiðslum úr sjóðnum. Vinsamlegast komið þeim á Skrifstofu stéttarfélaganna hafi viðkomandi starfsmaður sveitarfélags ekki fengið greiðslu áður í gegnum Framsýn stéttarfélag.
Athugið að ekki er tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem greidd er út til félagsmanna. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.
Rétt er að taka skýrt fram að félagsmenn Framsýnar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum eiga ekki rétt á greiðslum úr félagsmannasjóði enda ekki ákvæði þess efnis í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.