Á mbl.is má sjá þessa frétt sem unnin er upp úr könnun Maskínu:
„Þegar spurt var um hvort menn hefðu verið frá vinnu vegna veikinda undanfarna 12 mánuði átti það í heildina við 52% svarenda, en 48% höfðu ekki misst úr dag. Um 12% höfðu verið veik í meira en mánuð, en óverulegur munur á aldurshópum.
Um þriðjungur svarenda í könnun Maskínu á liðnum ársfjórðungi gekkst við því að hafa tilkynnt veikindi til vinnuveitanda að tilefnislausu. Mikill munur er þó á fólki eftir aldri í þeim efnum. Meira en helmingur yngstu aldurshópanna virðist ekki telja það tiltökumál, en í elsta hópnum má það heita undantekning.
Svör um hvort fólk hefði verið frá vinnu vegna veikinda virðast einnig endurspegla þetta. Eftir því sem fólk er eldra, því ólíklegra er að það hafi misst úr vinnu vegna veikinda.
Rétt er þó að taka fram að í þeim svörum er ekki gerður greinarmunur á því hvort um raunveruleg veikindi var að ræða eða ekki. Þar kunna veikindi barna einnig að hafa áhrif, sem hugsanlega skýrir að einhverju marki aukin veikindi eftir því sem fólk er yngra og að jafnaði heilsuhraustara, því barnafólkið er einnig að finna í yngri hópunum“. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2026/01/23/yngra_folkid_kaerulausara_um_veikindarett/
Sé könnunin marktæk eru þetta sláandi fréttir. Að sjálfsögðu ber öllum launþegum að virða ákvæði kjarasamninga varðandi sinn veikindarétt svo ekki komi til þess að atvinnurekendur krefjist þess að veikindarétturinn verði skertur í kjarasamningum vegna misnotkunar. Reyndar er það þegar farið að heyrast. Gangi það eftir að hann verði skertur, verður það mikið áfall fyrir alla þá sem eru sannarlega veikir og þurfa á veikindaréttinum að halda á hverjum tíma.