Bændum tekið fagnandi á alþýðutyllidegi

Konurnar í „Alþýðuhúsinu“ klikka ekki sem flestir kalla reyndar Skrifstofu stéttarfélaganna. Í húsnæði stéttarfélaganna fer fram heljarinnar starfsemi. Auk stéttarfélaganna eru Sparisjóður Þingeyinga, Sjóvá, Virk og ENOR með aðstöðu, það er á neðri hæðinni. Fleiri fyrirtæki eru með starfsemi á efri hæðinni. Því er vel við hæfi að tala um Alþýðuhúsið. Þegar karlpeningurinn mæti til vinnu í morgun voru þær búnar að útbúa þetta dýrindis hlaðborð með veitingum fyrir samstarfsfélaganna. Fyrir það ber að þakka rosalega vel. Þið eruð lang, lang bestar kæru samstarfskonur.

Svona til fróðleiks þá nefnist fyrsti dagur Þorra,  Bóndadagur. Takmarkaðar heimildir eru til um þennan dag og siði honum tengdum og því erfitt að ráða í aldur hans og hverju hann tengdist. Af þeim fáu heimildum sem til eru þá er þó ljóst af frásögnum af siðum honum tengdum að hér hafi verið um alþýðutyllidag en ekki hátíðisdag og því alls óvíst hvort hann hafi verið mjög útbreiddur eða hvaða tilstand hafi tíðkast þar sem hann var haldinn. Bændur hafa miklar skyldur á þessum degi svo vitnað sé í þjóðsögur Jóns Árnasonar. Hvað það varðar er rétt að taka fram að karlpeningurinn í Alþýðuhúsinu mæti ekki berlæraðir til vinnu í morgun svo vitnað sé í þjóðsögurnar.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar  kemur fram að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti:

… með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.  Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“ á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“.“

Deila á