Framkvæmdastjóri Stapa ekki fengið sérstakar launahækkanir

Nýlega var því haldið fram í fréttum DV að framkvæmdastjóri Stapa- lífeyrissjóðs hefði fengið sérstakar launahækkanir. Það rétta í málinu er:

Samningur sjóðsins við framkvæmdastjóra er með þeim hætti að taki hann sæti í stjórn félags eða samtaka, þarf samþykki stjórnar að koma til. Fái hann greidd stjórnarlaun fyrir slíka stjórnarsetu þá lækka laun hans frá sjóðnum um sömu fjárhæð. Þetta er gert til að framkvæmdastjóri hafi enga efnahagslega hagsmuni af slíkum stjórnarsetum.

Á sama hátt gerist það, að þegar framkvæmdastjóri gengur úr stjórnum þar sem hann hefur þegið stjórnarlaun, þá hækka laun hans frá sjóðnum um þá fjárhæð, sem áður hafði verið dregin frá launum hans vegna þeirrar stjórnarsetu. Í lok árs 2010 og í ársbyrjun 2011 gekk framkvæmdastjóri sjóðsins úr tveimur stjórnum þar sem hann þáði stjórnarlaun og situr nú ekki í neinum slíkum stjórnum. Það skýrir þá hækkun sem var á launum hans frá sjóðnum milli áranna 2010 og 2011. 

Laun framkvæmdastjóra voru lækkuð um 10% eftir hrun og hafa síðan tekið almennum launahækkunum í samræmi við breytingar á kjarasamningum Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri.  Óskað hefur verið eftir því við DV að þeir leiðrétti frétt sína.

Þessi frétt er tekin af  heimasíðu Stapa og er gott dæmi um hvernig fréttaflutningur fjölmiðla getur oft verið villandi.

.

Deila á