Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar hófst kl. 17:00 í dag og var fundinum að ljúka rétt í þessu. Miklar og góðar umræður urðu á fundinum um málefni sjómanna auk þess sem gengið var frá kjöri á stjórn deildarinnar til eins árs. Eftirtaldir hafa setið í stjórn: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Jakob gaf ekki kost á sér áfram enda verið formaður deildarinnar í 36 ár. Börkur Kjartansson var kjörinn nýr formaður og Gunnar Sævarsson varaformaður. Aðrir í stjórn eru Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson sem og Ögmundur Kristjánsson sem kemur nýr inn í stjórn deildarinnar. Meðfylgjandi er skýrsla stjórnar sem formaður deildarinnar, Jakob G. Hjaltalín, flutti.
„Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2026. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2025, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna.
Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 80 til 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.
Kjaramál:
Þann 6. febrúar 2024 skrifuðu SFS og Sjómannasabandið undir kjarasamning en samningar sjómanna höfðu þá verið lausir í nokkur ár. Gildistími samningsins er 10 ár en með uppsagnarákvæði eftir 5 ár og öðru eftir 7 ár. Búið er að uppfæra kjarasamninginn eftir síðustu breytingar og er hann þegar kominn inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is. Um þessar mundir er verið að prenta kjarasamninginn og verður hann tilbúinn fljótlega eftir áramótin til dreifingar meðal félagsmanna.
Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Stjórn deildarinnar hélt einn formlegan stjórnarfund á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum og þingum á vegum sambandsins.
Þing SSÍ:
34. þing Sjómannasambands Íslands fór fram á Grand Hótel 30. – 31. október 2025. Jakob Gunnar Hjaltalín var fulltrúi Sjómannadeildar Framsýnar á þinginu sem fór vel fram. Þingið byrjaði á ávarpi Atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðrikssonar. Í máli hennar kom fram vilji til að vinna betur með sjómönnum að hagsmunamálum þeirra. Meðal annars er áhugi fyrir því að efla Verðlagsstofu skiptaverðs. Aðrir gestir þingsins voru; Finnbjörn A Hermannsson forseti ASÍ, Árni Sverrisson formaður FS og Guðmundur H. Þórarinsson formaður VM. Ný sambandsstjórn var kjörin til næstu fjögurra ára. Þá voru tveir formenn heiðraðir sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna, þetta voru þeir, Vignir S. Maríasson frá Verkalýðsfélagi Snæfellinga og Jakob G. Hjaltalín frá Framsýn sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir Sjómannasambandið en þeir hafa setið í stjórnum og ráðum á vegum sambandsins til margra ára. Var þeim færður þakklætisvottur fyrir þeirra góðu störf í þágu sjómanna til margra ára. Margar og góðar ályktanir voru samþykktar á þinginu sem eru meðfylgjandi skýrslunni. Í lok þings færðu SSÍ, FS og VM, Slysavarnaskóla sjómanna 25 milljónir að gjöf sem er hlutur félaganna þriggja vegna slita á Fiskifélagi Íslands fyrr á árinu.
Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu 5 félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 753.752,- í námsstyrki. Um er að ræða fækkun á styrkjum til félagsmanna milli ára en árið 2024 voru greiddar út kr. 1.003.134,- í styrki til 13 félagsmanna vegna starfsmenntunar. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.
Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Þá starfa fjórir starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins það er fyrir utan orlofsbyggðina á Illugastöðum þar sem stéttarfélögin sem aðild eiga að orlofsbyggðinni eru með sameiginlega húsverði/umsjónarmenn.
Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2025, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Þá gengu hátíðarhöldin 1. maí afar vel en þau voru haldin á Fosshótel Húsavík. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Þar sem þetta er í síðasta skiptið sem ég stend hér sem formaður deildarinnar vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem og liðnum áratugum en ég hef verið formaður deildarinnar vel á fjórða áratug um leið og ég mun með mikilli ánægju afhenda nýjum formanni keflið síðar á fundinum. Takk fyrir mig og takk fyrir traustið í gegnum tíðina. Megi deildin dafna um ókomna tíð, sjómönnum til hagsbóta.“