Sjálfstæðisflokkurinn stóð nýlega fyrir opnum fundi á Húsavík um atvinnumál og stöðuna í þjóðfélaginu. Eðlilega fengu atvinnumálin á svæðinu töluverða athygli enda liggur starfsemi PCC á Bakka að mestu niðri. Óvíst er hvort eða hvenær starfsemi hefst á ný á Bakka. Fleiri mál fengu jafnframt athygli svo sem íslenskur landbúnaður og staðan í ferðaþjónustunni nú þegar til stendur að auka verulega álögur á fyrirtæki í ferðaþjónustu með alls konar sköttum á komur ferðamanna. Vegna þessa er ferðaþjónustan í miklu uppnámi, ekki síst er varðar komur skemmtiferða til landsins á komandi ári, jafnvel árum.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var boðið að sitja fundinn og taka þátt í umræðum á fundinum. Hann fór almennum orðum um stöðuna í atvinnumálum á svæðinu s.s. á Bakka. Hann kom einnig inn á þann mikla vanda sem blasir við ferðaþjónustunni og íslenskum landbúnaði. Hvatti hann formann og þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að berjast fyrir tilvist landbúnaðar á Íslandi. Máli sínu til stuðnings afhendi hann formanni Sjálfstæðisflokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttir, Lambadagatal 2026. Höfundur dagatalsins er, Ragnar Þorsteinsson, bóndi í Sýrnesi í Aðaldal. Dagatalið, sem prýtt er myndum af maglitum unglömbum, hefur vakið mikla athygli en megintilgangur útgáfurnar er að breiða út sem víðast fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar.
Aðalsteinn Árni sagði að um táknræna gjöf væri um að ræða til að minna á mikilvægi landbúnaðar á Íslandi, taldi hann við hæfi að dagatalinu yrði komið fyrir í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins við Austurvöll. Guðrún tók skilaboðunum og gjöfinni vel enda myndirnar í dagatalinu einstaklega glæsilegar. Þakkaði hún fyrir gjöfina um leið og hún hét því að standa vörð um íslenskan landbúnað.

Í nýlegu Bændablaði er fjallað um Lambadagatalið 2026. Höfundur dagatalsins er, Ragnar Þorsteinsson, bóndi í Sýrnesi. Dagatalið er prýtt myndum af maglitum unglömbum, megintilgangur útgáfurnar er að breiða út sem víðast fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar.