Góðu þingi lokið – Aðalsteinn í framkvæmdastjórn

Vel heppnuðu framhaldsþingi Starfsgreinasambandsins lauk í gær. Á þinginu voru samþykkt ný lög sambandsins þar sem umtalsverðar breytingar eru gerðar á stjórnskipulagi, hlutverki og starfsemi sambandsins. Að auki voru samþykktar fjórar nýjar reglugerðir sem er ætlað að styrkja starfsemina, efla upplýsingamiðlun SGS og skilgreina verkaskiptingu milli aðildarfélaganna og sambandsins. Á þinginu var Björn Snæbjörnsson kjörinn formaður sambandsins og Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir varaformaður, en þau hafa bæði gengt umræddum embættum frá því vorið 2011. Þá náði formaður Framsýnar kjöri í Framkvæmastjórn sambandsins. Kjörtímabilið er tvö ár.

Niðurstaða þingsins er afrakstur mikillar vinnu sem farið hefur fram á vegum sambandsins undanfarna mánuði. Síðastliðið haust var ákveðið að ráðast í gagngera endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins. Tillögur starfshóps sem skipaður var á þingi SGS í október s.l. voru lagðar fram fyrir framhaldsþingið og samþykktar. Tillögurnar breyttust lítillega í meðferðum þingsins, en miklar umræður sköpuðust um vissar tillögur. Ein veigamesta breytingin er að vægi formannafunda er aukið og skulu þeir haldnir að lágmarki 3-4 sinnum á ári. Þá er fækkað í framkvæmdastjórn sambandsins úr þrettán í sjö. Nokkur umræða skapaðist á þinginu um þá tillögu starfshópsins sem gerði ráð fyrir því að eingöngu skyldi horft til þess að hlutfall kynja væri sem jafnast í framkvæmdastjórn, en ekki væri tekið tillit til landshluta eða starfsgreina.Tillaga starfhópsins var samþykkt en þess má geta að í nýrri framkvæmdastjórn eru þrjár konur og fjórir karlar.

Ný stjórn er skipuð eftirfarandi einstaklingum:

Formaður:
Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja

Varaformaður:
Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, AFL Starfsgreinafélag

Meðstjórnendur:
Aðalsteinn Á. Baldursson, Framsýn- stéttarfélag
Halldóra Sveinsdóttir, Báran stéttarfélag
Kolbeinn Gunnarsson, Vlf. Hlíf
Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands
Sigurður Bessason, Efling- stéttarfélag

Varamenn:
1. Sigurrós Kristinsdóttir, Efling- stéttarfélag
2. Ásgerður Pálsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða
3. Finnbogi Sveinbjörnsson, VerkVest

4. Vilhjálmur Birgisson, Vlf. Akranes

5. Magnús S. Magnússon, Vlf. og sjómannafélag Sandgerðis

Starfs- og fjárhagsáætlun samþykkt

Á þinginu var lögð fram ný starfsáætlun sambandsins fyrir árin 2012 og 2013 og var hún einróma samþykkt af fulltrúum þingsins. Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö málaflokkar verði settir í forgang hjá skrifstofu sambandsins næstu tvö árin, en þeir snúa að kjaramálum, innra skipulagi, upplýsingamálum og ímynd sambandsins, hagræðingu, málefnum útlendinga, fræðslu- og menntamálum og erlendum samskiptum. 

Drög að fjárhagsáætlun var jafnframt lögð fram á þinginu og var hún samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í rekstri sambandsins.  Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir því að skattur á aðildarfélög verði hækkaður á tímabilinu.

Deila á