Staðan í atvinnumálum til umræðu í kvöld

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk stjórnar Framsýnar-ung komu saman til fundar kl. 17:00 og var fundinum að ljúka rétt í þessu. Eðlilega urðu miklar umræður um atvinnumál, ekki síst stöðuna á Bakka en fjöldi starfsmanna hefur misst vinnuna auk starfsmanna hjá undirverktökum. Eðlilega höfðu fundarmenn almennt miklar áhyggjur af stöðu starfsmanna sem eiga í hlut hjá PCC og undirverktökum sem og atvinnuástandinu almennt enda atvinnuleysið aukist hratt síðustu mánuði í sveitarfélaginu Norðurþingi eða um allt að 30%.

Starfsmenn sem eiga í hlut hafa komið kvörtunum sínum á framfæri þar sem þeim finnst ekki vera tekið á þeirra málum af alvöru auk þess sem ekkert sé talað um vinnumarkaðsúrræði eða vanda fólks. Í umræðunni sé aðeins talað um tekjutap samfélagsins og þar með sveitarfélagsins hvað varðar lokunina á Bakka, minna sé talað um stöðu starfsmanna og jafnvel talað um að erlendir starfsmenn geti „bara“ farið aftur heim, það sé þögn í samfélaginu sem sé mikið áhyggjuefni.

Forsvarsmenn Framsýnar, sem hafa unnið mjög náið með starfsmönnum PCC, taka heilshugar undir áhyggjur þeirra og hafa komið þeim á framfæri við þingmenn, ráðherra og sveitarstjórnarfólk auk þess að krefjast þess að Vinnumálastofnun verði með fasta viðverutíma á Skrifstofu stéttarfélaganna í vetur. Það mál er í frekari skoðun. Þá sé athyglisvert að ekki sé fjallað sértaklega um vanda starfsmanna PCC og hvað taki við eftir uppsögnina í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um atvinnumál á Húsavík er tengist lokunninni á Bakka. Það hafi væntanlega hreinlega gleymst sem sé óásættanlegt með öllu. Þeim athugasemdum hefur þegar verið komið á framfæri við formann starfshópsins sem fór fyrir skýrslu forsætisráðherra. Á fundinum, sem eins og áður hefur komið fram var að ljúka, kom fram gagnrýni á innihald skýrslunnar.

Deila á