Á þingi Starfsgreinasambandsins fyrir helgina urðu miklar umræður um byggða- og atvinnumál. Meðal annars urðu umræður um stöðu PCC sem undanfarna mánuði hefur sagt upp yfir 100 starfsmönnum þar sem starfsemi fyrirtækisins liggur niðri um þessar mundir. Þá hefur einnig komið til uppsagna hjá undirverktökum sem hafa séð um ákveðna verkþætti á vegum PCC. Eftir málefnalegar umræður var eftirfarandi ályktun um stöðu PCC á Bakka samþykkt samhljóða:
„10. þing Starfsgreinasambands Íslands kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málefnum PCC Bakki Silicon hf. við Húsavík.
Afar mikilvægt er að stjórnvöld komi að málinu að fullum krafti með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu. Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og röskunum á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC þar sem ódýr kísilmálmur flæðir yfir frá Kína til Evrópu sem unninn er af verkafólki þar sem mannréttindi, launakjör og aðbúnaður verkafólks eru fótum troðin.
Lokun PCC er þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað á Norðurlandi auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja hundruðir starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi sem er hverju byggðalagi mjög mikilvægt.
Takist ekki að tryggja rekstrarumhverfi PCC, sem er ein fullkomnasta kísilmálmverksmiðja í heiminum, keyrð á grænni orku, mun það hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér fyrir atvinnulífið á Norðurlandi og víðar auk þess sem Ísland verður af gjaldeyristekjum. Því er ekki í boði fyrir íslensk stjórnvöld að sitja aðgerðarlaus hjá, núverandi staða kallar á aðgerðir strax.“
