Nýlega fagnaði Áttin 10 ára afmæli en vefgáttinni er ætlað að taka á móti umsóknum fyrirtækja um fræðslustyrki og koma þeim áfram til úrvinnslu hjá viðkomandi starfsmenntasjóðum sem tengjast Áttinni en átta fræðslusjóðir eiga aðild að vefgáttinni. Afmælishátíðin var ekki aðeins tímamót heldur einnig áminning um mikilvægi starfsmenntunar á íslenskum vinnumarkaði. Á sama tíma er þess minnst að fræðslusjóðirnir – sem hafa markað djúp spor í íslenskt atvinnulíf – eru nú 25 ára. Þessi tvöföldu tímamót gefa tilefni til að staldra við, horfa til baka og spyrja: hvert stefnum við næst?
Sameiginleg framtíðarsýn
Árið 2000 tóku aðilar vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum sameiginlegt skref sem hefur haft langvarandi áhrif. Með stofnun öflugra fræðslusjóða var lagður grunnur að kerfi sem gerir starfsfólki og fyrirtækjum kleift að fjárfesta í sí- og endurmenntun. Landsmennt, Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hófu starfsemi á þessum tíma og hafa síðan veitt þúsundum einstaklinga og fjölda fyrirtækja aðgang að styrkjum til náms. Nokkru síðar urðu til fleiri fræðslusjóðir með sama hlutverk fyrir starfsmenn sveitarfélaga og ríkisstofnana innan Starfsgreinasambands Íslands enda menntun starfsmanna sameiginlegt hagsmunamál samningsaðila.
Jöfnuður í verki
Það er auðvelt að tala um jöfn tækifæri en erfiðara að tryggja þau í framkvæmd. Stór hluti íslensks vinnumarkaðar byggist á störfum sem ekki krefjast formlegrar menntunar: verslunar- og þjónustustörf, iðnverkastörf, fiskvinnslustörf og störf við ræstingar. Þetta er fólk sem vinnur oft langan vinnudag við krefjandi aðstæður og hefur takmarkað svigrúm til náms. Ef menntun er aðeins aðgengileg þeim sem búa vel efnahagslega eða landfræðilega er hún ekki tæki til jafnréttis heldur mismununar. Þess vegna skipta fræðslusjóðirnir svo miklu máli – þeir jafna stöðuna. Þeir gera fólki kleift að stíga skrefið inn í nám sem annars væri utan seilingar.
Óformleg menntun þarf viðurkenningu
Íslenskur vinnumarkaður er fullur af starfsfólki sem hefur byggt upp mikla færni í gegnum reynslu og sjálfsnám. Almennur starfsmaður sem hefur unnið í tvo áratugi við viðhald tækja hefur öðlast þekkingu sem oft stenst samanburð við formlegt nám. En kerfið skilgreinir hann sem ófaglærðan. Þetta er bil sem þarf að brúa. Lausnin liggur í raunfærnimati, hæfnigreiningum og sveigjanlegum námsleiðum sem taka mið af raunverulegri reynslu og getu fólks. Hér gegna fræðslusjóðirnir lykilhlutverki með því að styðja við námskeið, styttri námsleiðir og sérsniðin úrræði sem virða og viðurkenna þá þekkingu sem aflað hefur verið í starfi.
Landfræðilegar hindranir
Það er ekki nóg að bjóða upp á nám – það þarf líka að tryggja raunverulegt aðgengi að því. Fyrir marga á landsbyggðinni felur nám í sér mikinn kostnað og félagslegar hindranir. Að flytja tímabundið frá heimabyggð eða ferðast langar vegalengdir er ekki raunhæfur kostur fyrir fólk með fjölskyldu. Ef við ætlum að tala um jöfn tækifæri verðum við að horfa til þessa hóps. Markmiðið hlýtur að vera: fræðsluna heim að dyrum.
Lykillinn að framtíðinni
Við stöndum á tímamótum. Ef tryggja á raunverulegt jafnrétti í starfsmenntun þarf að efla fræðslusjóðina enn frekar. Styrkir verða að ná að standa undir ekki aðeins skólagjöldum heldur líka ferðakostnaði og tekjutapi sem fylgir því að taka sér tíma frá vinnu. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem standa höllum fæti: fólk með litla formlega menntun, fólk með lágar tekjur, konur í láglaunastörfum og íbúa landsbyggðarinnar. Á Íslandi hefur menntun lengi verið talin lykill að framþróun. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi lykill passi fyrir alla. Starfsmenntun á ekki að vera hindrun heldur brú – leið til framtíðar óháð efnahag eða búsetu. Hún er lykillinn að jöfnuði, réttlæti og framþróun – okkur öllum til hagsbóta. Við fögnum nú 10 ára afmæli Áttarinnar og 25 ára afmæli fræðslusjóðanna. Tímamótin minna okkur á að sagan er aðeins upphafið – framtíðin ræðst af því hvort við nýtum tækin sem við höfum til að skapa raunveruleg jöfn tækifæri fyrir alla á íslenskum vinnumarkaði. Þangað eigum við að stefna.
Aðalsteinn Árni Baldursson
(Höfundur er formaður Framsýnar stéttarfélags og stjórnarformaður Fræðslusjóðsins Landsmenntar)