Fulltrúaráðsfundur Alþýðusambands Norðurlands var haldinn miðvikudaginn 24. september að Illugastöðum í Fnjóskadal. Fulltrúaráðsfundur er haldinn þau ár sem þing sambandsins eru ekki haldin. AN er samband aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands á Norðurlandi sem nær frá Blönduósi að Þórshöfn á Langanesi. Formaður þess er, Ósk Helgadóttir, sem jafnframt er varaformaður Framsýnar. Mörg mjög áhugaverð erindi voru flutt á fundinum auk þess sem töluverðar umræður urðu um málefni fundarins og ASÍ.
Dagskráin var svona:
Farsæld barna SSNV:
Þorleifur Kr. Níelsson verkefnastjóri Farsældar
Jafnréttisbarátta á tímamótum. Er þetta ekki bara komið?:
Bryndís Elfa Valdimarsdóttir sérfræðingur Jafnréttisstofu
Ég er bara svona:
Sesselja Barðdal framkvæmdastýra Driftar
Fyrirhuguð uppbygging Háskólasamstæðu í Skagafirði:
Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum
Fræðasetur um forystufé:
Daníel Hansen forstöðumaður kynnir starfsemi setursins
Staða orlofsbyggðarinnar:
Tryggvi Jóhannsson formaður orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
Eftir framsögur frummælenda og umræður var fundurinn þó ekki búinn þar sem óskað var eftir umræðum um starfsemi ASÍ er snúa að málefnum félagsmanna aðildarfélaga sambandsins á landsbyggðinni. Voru fundarmenn sammála um að sambandið mæti huga betur að málefnum landsbyggðarinnar og þar með félagsmanna. Staðan í dag væri óásættanleg með öllu. Veltu fundarmenn því fyrir sér hvernig best væri að bregðast við óánægju fundarmanna með stöðuna. Ekki er ólíklegt að stjórn sambandsins fylgi málinu eftir og taki málið fyrir á næsta fundi stjórnar.



