Afmælisráðstefna á vegum Áttarinnar var haldin á Grand hótel í Reykjavík síðasta fimmtudag. Tilefnið var 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna s.s. Landsmenntar og 10 ára afmæli Áttarinnar, sameiginlegrar vefgáttar sjóðanna. Ráðstefnan fór vel fram. Meðal ræðumanna var stjórnarformaður Landsmenntar sem jafnframt er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Áhugasamir geta lesið ræðuna hans hér að neðan en hátíðin fór vel fram og var fjölsótt:
Ágætu afmælisgestir
Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag á þessum tímamótum þegar starfsmenntamál á íslenskum vinnumarkaði eru til umræðu.
Tilefnið er afmælisfagnaður Áttarinnar sem fagnar nú 10 ára afmæli. Sjálfur kom ég að þessu verkefni á sínum tíma ásamt mörgu öðru góðu fólki sem er hér samankomið til að gleðjast.
Markmiðið með stofnun Áttarinnar var ekki síst að draga úr ákveðnu flækjustigi fyrir fyrirtæki að sækja um styrki fyrir blandaðan hóp starfsmanna með aðild að mismunandi fræðslusjóðum. Áttin er án efa mikilvægur samnefnari og hlekkur í keðjunni til aukinnar starfsmenntunar á íslenskum vinnumarkaði.
Við sem erum hér samankomin vitum að atvinnulífið er langt frá því að vera staðnað. Það þróast hratt – ný tækni, nýjar aðferðir, aukin alþjóðavæðing og breyttar kröfur til starfsfólks og fyrirtækja gera það að verkum að engin atvinnugrein stenst tímans tönn án stöðugrar þróunar. Við þurfum aðlögunarhæfni – við þurfum þekkingu – við þurfum menntun. Starfsmenntun sem drifkraft réttlætis og framfara.
Það hefur oft verið sagt, að okkur sé hollt að horfa reglulega í baksýnisspegilinn og líta yfir farinn veg.
Ég get ekki verið meira sammála. Hugurinn reikar aftur til ársins 2000 þegar aðilar vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum stóðu sameiginlega að einu mesta framfaraskrefi í sögu vinnumarkaðarins hvað varðar þróun í atvinnulífinu.
Það var með stofnun öflugra fræðslusjóða með sérstökum fjárframlögum sem í fyrstu komu frá Atvinnuleysis-tryggingasjóði, síðar frá fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins: Landsmennt, Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hófu starfsemi og fagna nú um þessar mundir 25 ára afmæli sjóðanna.
Ekki er vitað hvað var í vatninu á þessum tíma en algjör samstaða var innan verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og stjórnarráðsins að hrinda þessu mikilvæga verkefni í gang, það er að efla starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði með sérstökum fjárframlögum til framtíðar.
Í kjölfarið voru fleiri fræðslusjóðir stofnaðir í formlegum kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins sem tengdust aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.
Frá upphafi hafa fræðslusjóðirnir haft sömu markmið: Markmið þeirra var – og er enn – að styðja við bakið á félagsmönnum, fyrirtækjum og stofnunum hvað varðar styrki s.s. til starfsmenntunar og þróunar námsleiða fyrir atvinnulífið.
Það var ekki bara að fræðslusjóðir spryttu upp eins og gorkúlur heldur hófu fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar starfsemi víða um land sem byggðu tilvist sína, ekki síst, á góðu aðgengi að styrkjum til starfsmenntunar frá fræðslusjóðum líkt og er í dag, 25 árum síðar.
Flestir hér inni vita hvar ég stend, sem stjórnarmaður í fræðslusjóði auk þess að vera virkur í starfi fræðslumiðstöðvar norður í landi sem og formaður í blönduðu stéttarfélagi sem aðild á að Starfsgreinasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Landssambandi íslenskra verslunarmanna, auk þess að vera forstöðumaður félags iðnaðarmanna innan Samiðnar.
Þörfin fyrir sí- og endurmenntun er alls staðar til staðar hjá þessum hópum innan ASÍ sem og hjá fyrirtækjum sem aðild eiga að fræðslusjóðum atvinnulífsins í gegnum sín heildarsamtök.
Í umræðu um menntun í þjóðfélaginu gleymist stundum sá hópur sem heldur uppi stærstum hluta vinnumarkaðarins: starfsfólk í verslunar- og þjónustustörfum, iðnverkafólk, fiskvinnslufólk, bílstjórar, ræstingafólk, sjómenn – og svo mætti lengi telja.
Þetta er fólk sem vinnur almennt langan vinnudag, oft við krefjandi aðstæður, og hefur í mörgum tilvikum ekki haft sömu tækifæri og aðrir til að sækja sér formlega menntun – hvað þá frekara nám. Þegar við tölum um menntun sem rétt allra verðum við að horfa sérstaklega til þessa hóps.
Það er því ekki bara spurning um að bjóða upp á nám. Við verðum að tryggja að aðgengi að námi sé raunverulegt, sérstaklega fyrir þá sem hafa minnst svigrúm – fjárhagslegt, félagslegt eða landfræðilegt. Menntun sem er aðeins í boði fyrir suma er ekki jöfn tækifæri, heldur mismunun.
Við verðum líka að viðurkenna að menntun er ekki alltaf formleg. Þúsundir einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði hafa aflað sér mikillar þekkingar og færni í gegnum reynslu, störf og sjálfsnám – oft án þess að sú þekking sé viðurkennd innan hins formlega menntakerfis. Gleymum því ekki að óformleg menntun er verðmæt þekking sem ber að viðurkenna.
Hugsum okkur mann sem hefur unnið í 20 ár við viðhald tækja, án þess að hafa lokið fagprófi. Hann hefur lært í verki, þróað lausnamiðaða hugsun og öðlast færni sem margir nýútskrifaðir tæknimenntaðir einstaklingar myndu dást að. En þegar hann sækir um nýtt starf eða vill hefja nám til að fá viðurkennd réttindi stendur hann frammi fyrir vegg: kerfið sér hann sem ófaglærðan.
Þetta er eitt af mikilvægustu hlutverkum okkar núna: að brúa bilið milli óformlegrar færni og viðurkenndrar menntunar. Það gerum við með öflugu raunfærnimati, hæfnigreiningum, aðgengi að styttri námsleiðum, sveigjanlegum námsformum og ekki síst með stuðningi fræðslu- og starfsmenntasjóða.
Við í verkalýðshreyfingunni höfum ítrekað bent á að virða þurfi alla þekkingu – ekki aðeins þá sem fæst á skólabekk – heldur líka þá sem fólk hefur aflað sér með eigin höndum, með áralangri vinnu, með því að sjá og gera og leysa vandamál í raunveruleikanum.
Hér koma fræðslusjóðirnir sterkt inn. Þeir eru ekki bara tæki til að styrkja fólk til náms, heldur líka verkfæri til að jafna tækifæri – grunnstoðir í jöfnuði á vinnumarkaði.
Þegar fyrstu fræðslusjóðirnir voru stofnaðir af aðilum vinnumarkaðarins var stigið stórt framfaraskref. Þá var viðurkennt að fræðsla væri sameiginlegt hagsmunamál – ekki aðeins einstaklinga heldur líka atvinnurekenda og samfélagsins í heild.
Frá þeim tíma hefur fræðslusjóðum fjölgað og þeir þróast – og orðið mikilvægir burðarásar í atvinnulífinu. Þeir hafa gert þúsundum einstaklinga – oft með lítinn menntunargrunn – kleift að sækja sér fræðslu og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Samhliða hafa mörg fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins staðið fyrir öflugri fræðslu innan sinna veggja. Það hefur verið framkvæmanlegt, ekki síst vegna aðgengis að öflugum fræðslusjóðum og verkfærum sem tengjast uppbyggingu starfsmenntunar.
En við megum ekki staðna. Ef við viljum tryggja raunverulegt jafnrétti þurfum við að efla fræðslusjóði enn frekar. Styrkir þurfa að vera nægilega háir til að standa undir kostnaði – ekki aðeins skólagjöldum, heldur líka ferða- og dvalarkostnaði, jafnvel tekjutapi sem fylgir því að taka sér tíma frá vinnu.
Þegar við skoðum hópana sem standa höllum fæti gagnvart starfsmenntun sjáum við:
- Fólk með litla sem enga formlega menntun
- Fólk með lágar tekjur og fjölskylduaðstæður sem gera langskólanám óraunhæft
- Konur í láglaunastörfum, ekki síst í ferðaþjónustu og í umönnunargeiranum
- Starfsfólk í vaktavinnu sem hefur takmarkað svigrúm til náms
- Og ekki síst: fólk sem býr á landsbyggðinni
Það má aldrei gleymast að aðgengi að framhaldsnámi er mjög mismunandi eftir landsvæðum. Í mörgum tilvikum þurfa einstaklingar að flytja sig tímabundið frá heimabyggð eða ferðast langar vegalengdir til að sækja nám. Það felur í sér bæði fjárhagslegan kostnað og félagslegar hindranir, sérstaklega fyrir fólk með börn eða fjölskyldubundnar skyldur. Ef við ætlum að tala um jöfn tækifæri verðum við að horfast í augu við þessa staðreynd.
Við Íslendingar börðumst lengi fyrir því að fá handritin heim frá Danmörku. Í dag liggur baráttan ekki þar, hún liggur í því að jafna aðgengi allra Íslendinga að námi eða annarri fræðslu á þeirra forsendum burt séð frá stöðu, efnahag eða búsetu. Kjörorðið er, fræðsluna heim að dyrum.
Þá megum við ekki gleyma því að samvinna atvinnurekenda og stéttarfélaga skiptir hér megin máli– því menntun er sameiginlegur ávinningur. Starfsmaður sem sækir sér aukna starfsmenntun verður hæfari til starfa sem kemur bæði honum og fyrirtækinu sem hann starfar hjá til góða.
Eða eins og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins sagði: Við eigum að láta fræðslusjóðina vinna fyrir okkur – þeir eiga ekki að safna upp digrum sjóðum heldur þjóna atvinnulífinu með fjárframlögum til starfsmenntunar.
Hver getur ekki tekið undir þessi heilræði fyrrum formanns SA? Þessi sýn á að vera okkar sameiginlegi vegvísir inn í framtíðina.
Ágætu gestir!
Við erum öll hér vegna þess að okkur er mjög annt um framtíð íslensks atvinnulífs. Við eigum það sameiginlegt – hvort sem við komum frá fyrirtækjum, stéttarfélögum eða fræðsluaðilum víða um land.
Við höfum tækin til að skapa umhverfi þar sem starfsmenntun er raunhæfur kostur fyrir alla – ekki bara þá sem búa vel eða hafa bakland, menntun og fjármagn – heldur líka þá sem standa í eldlínunni á vinnumarkaði alla daga.
Við þurfum að tryggja að menntun sé ekki hindrun – heldur brú. Ekki veggur – heldur leið til framtíðar fyrir okkur öll, óháð stöðu og efnahag. Starfsmenntun er nefnilega lykillinn að jöfnuði, réttlæti og framþróun í íslensku atvinnulífi – okkur öllum til hagsbóta, bæði fyrirtækjum og einstaklingum.
Að lokum vil ég óska okkur öllum til hamingju með tímamótin, nú þegar við fögnum 10 ára afmæli Áttarinnar og 25 ára starfsafmæli fræðslusjóðanna.
Takk fyrir.
