Nýlega var stofnaður íslenskur samráðsvettvangur verkalýðs- og almannaheillafélaga gegn þjóðarmorði og hernámi Ísraels í Palestínu og því afskiptaleysi sem einkennt hefur viðbrögð alþjóðasamfélagsins við glæpum Ísraels. Stærstu aðildarfélög ASÍ hafa þegar tilkynnt um þátttöku sína, auk annarra heildarsamtaka launafólks. Hópurinn sem kallar sig Samstaða fyrir Palestínu
stendur fyrir kröfufundum víða um land laugardaginn 6. september undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði. Fundirnir verða haldnir á Akureyri Ísafirði, Stykkishólmi og í Reykjavík og hefjast kl. 14:00. Fundurinn á Akureyri verður haldinn á Ráðhústorginu.
Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða um leið og skorað er á sem flesta að taka þátt í kröfufundum dagsins:
„Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með hópnum sem kallar sig „Samstaða fyrir Palestínu“ um kröfu til stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins um tafarlausar aðgerðir til að stöðva þjóðarmorðið í Palestínu. Þá hvetur Framsýn landsmenn til að taka þátt í kröfufundum sem haldnir verða víða um land laugardaginn 6. september undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði.“
Til viðbótar má geta þess að í nær tvö ár höfum við horft upp á ólýsanlegar þjáningar palestínsku þjóðarinnar vegna grimmdarverka Ísraela í Palestínu. Heimsbyggðin fylgist með þeim hryllingi hungursneyðar sem Ísraelar hafa framkallað á Gaza með því að loka fyrir alla neyðaraðstoð, á meðan stjórnvöld í Ísrael fyrirskipa herafla landsins að myrða af svívirðilegu miskunnarleysi saklaust fólk er það leitar hjálpar. Þá bíður hungurdauði nú tveggja milljóna manna, þar af fjölda barna, vegna þeirrar yfirlýstu stefnu ofstækismanna að leggja undir sig allt land Palestínumanna. Alþjóðadómstóllinn hefur lagt framgöngu Ísraela að jöfnu við þjóðarmorð og úrskurðað hersetu Ísraela á palestínsku landi ólöglega.
Alþjóðasamfélagið hefur algjörlega brugðist í að stöðva þessar hörmungar og látið léttvægar yfirlýsingar og hvatningar til stjórnvalda Ísraels um að gæta meiri hófsemdar í glæpaverkum sínum nægja. Eftir nær tvö ár af hryllingi leikur enginn vafi á að orð munu ekki duga til. Kallað er eftir aðgerðum strax til að stoppa þjóðarmorð á Palestínumönnum.
Nánar má lesa um fundina inn á slóðinni https://www.facebook.com/thjodgegnthjodarmordi