Framsýn hefur óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Bjargs um frekari uppbyggingu á öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur á félagssvæðinu sem nær frá Raufarhöfn að Vaðlaheiði. Eins og kunnugt er byggði Bjarg sex íbúða raðhús í samstarfi við Norðurþing fyrr á þessu ári. Slegist var um íbúðirnar þar sem yfir 40 umsóknir bárust um íbúðirnar sex.
Framsýn vill sjá frekari uppbyggingu í Norðurþingi auk þess sem Bjarg komi að því að byggja sambærilegt húsnæði í Þingeyjarsveit. Forsvarsmenn beggja sveitarfélaganna hafa lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við Bjarg um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði í sveitarfélögunum.
Eins og kunnugt er, þá er Bjarg íbúðafélag sjálfseignarstofnun og rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norænni fyrirmynd. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum á höfuðborgarsvæðinu í júní 2019.
Þess er vænst að fundur aðila um málið verði haldinn á næstu dögum eða vikum, það er í síðasta lagi fyrir næstu mánaðamót. Beiðni um fund var ítrekuð síðast í morgun.