Konur þjóðveganna

Í gegnum tíðina hefur Eimskip rekið mjög öfluga aksturdeild á Húsavík og hafa margir magnaðir bílstjórar starfað hjá fyrirtækinu, nægir þar að nefna höfðingjana Gulla Sveinbjörns og Bjarna Sveins sem hætti fyrir nokkrum árum eftir áratuga akstur flutningabíla milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Eins og kunnugt er, þá er bílstjórastarfið bæði gefandi og krefjandi starf. Lengst af hefur verið um að ræða karlæg störf, en sem betur fer, hefur það verið að breytast á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna, þá hafa væntanlega aldrei verið fleiri konur við störf hjá akstursdeild Eimskips á Húsavík en um þessar mundir. Í dag starfa þrjár konur hjá fyrirtækinu við akstur á stórum og öflugum flutningabílum. Þetta eru þær, Alice, Susanna og Aðalbjörg talið frá vinstri á meðfylgjandi mynd. Til viðbótar má geta þess að Susanna er fyrsta konan sem ráðin er sem bílstjóri á flutningabíla hjá Eimskip á Húsavík. Þekkt er að flutningabílstjórar eru duglegir við að skreyta bílstjóraklefann í sínum anda og þá má oftar en ekki sjá nafn viðkomandi bílstjóra við framrúðuna þegar þeir keyra um þjóðvegi landsins. Ekki er ólíklegt að með tilkomu fleiri kvenna í stéttinni eigi skreytingarnar í bílstjóraklefanum eftir að taka kvenlegum breytingum í anda þess sem situr undir stýri á hverjum tíma.

Deila á