„We look for Botnsvatn – we want to find bird – lundi!“

Það er alltaf eitthvað óvænt og skemmtilegt sem gerist á Skrifstofu stéttarfélaganna sem færir starfsmönnum bæði gleði og bros á vör.

Í morgun komu erlendir ferðamenn inn á skrifstofuna og lögðu fram eftirfarandi spurningu;
„We look for Botnsvatn – we want to find bird – lundi!“

Starfsfólkið tók þeim að sjálfsögðu með opnum örmum og skoðaði kortið. Fljótlega kom í ljós að þeir voru óvart á leið í átt að Nettó, ekki að Botnsvatni, sannarlega ekki í átt að heimkynnum lunda. Þegar leiðrétting hafði verið gerð með brosi á vör og útskýringum, kviknaði önnur spurning:

„Swim puffins in lake?“

Varð okkur ljóst að um stóran misskilning væri um að ræða. Við útskýrðum að lundi – okkar ástsæli sjófugl – verpti í bjargbrúnum við sjóinn, ekki við stöðuvötn á norðanverðu landinu. Ferðamennirnir tóku upplýsingunum með jafnaðargeði, þó greinilegt væri að vonbrigðin væru töluverð – þeir höfðu greinilega ímyndað sér lunda synda um Botnsvatn líkt og andapör á Búðaránni.

Að lokum kvöddu þeir með hlýjum kveðjum, myndavélar í hönd og kannski smá von í hjarta – um að rekast á lunda í bænum. Í það minnsta sögðust ferðamennirnir hafa fengið upplýsingar um Lundabyggð við Botnsvatn. Hver veit nema blessað fólkið hafi ekki trúað starfsmönnum stéttarfélaganna og séu nú á leið upp að Botnsvatni til að skoða Lundabyggðina.

Deila á