Framsýn stéttarfélag hefur skrifað Bjargi íbúðafélagi og sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit bréf þar sem óskað er eftir frekara samstarfi hvað varðar uppbyggingu á öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu fyrir félagsmenn stéttarfélaganna í þessum tveimur sveitarfélögum. Eins og kunnugt er, voru nýlega teknar í notkun sex raðhúsaíbúðir á Húsavík en yfir 40 einstaklingar/fjölskyldur sóttu um íbúðirnar sem voru samstarfsverkefni Bjargs og Norðurþings. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er greinilega mikil vöntun á íbúðum sem þessum.
Svo það sé rifjað upp, þá er Bjarg íbúðafélag húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.
Talsmenn Framsýnar hafa þegar átt samtöl við forsvarsmenn Norðurþings og Þingeyjarsveitar vegna málsins. Þar er mikil vilji til þess að fá Bjarg að frekari uppbyggingu á svæðinu. Hvað það varðar vinnur Framsýn að því að halda fundi á næstu vikum með aðilum málsins til að kanna áhuga þeirra á frekara samstarfi.

Formaður Framsýnar hefur átt samtöl við sveitarstjóra Norðurþings og Þingeyjarsveitar um frekari uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á svæðinu í samstarfi við Bjarg íbúðafélag. Íbúðunum er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Á meðfylgjandi mynd er Aðalsteinn Árni með Katrínu Sigurjóns sveitarstjóra Norðurþings. Forsíðumyndin er hins vegar af sveitarstjóra Þingeyjarsveitar, Ragnheiði Jónu Ingimars og formanni Framsýnar á dögunum þegar málið var til umræðu í stuttu spjalli á Reykjavíkurflugvelli, það er meðan beðið var eftir flugi norður.

Mikil ánægja er með uppbyggingu Bjargs á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framsýn hafði frumkvæði að þessu samstarfsverkefni sem í alla staði hefur gengið afar vel.

Afar mikivægt er að menn skrái sig hjá Bjargi íbúðafélagi vilji viðkomandi komast í húsnæði á þeirra vegum á næstu árum. Þegar kemur að úthlutun er farið eftir því hvenær menn skráðu sig hjá félaginu með íbúð. Hægt er að nálgast allar upplýsingar inn á heimasíðu Bjargs, bjarg.is