Félagar í Rótarskoti í Norðaustri óskuðu nýlega eftir kynningu á starfsemi Framsýnar. Góður hópur félagsmanna kom í heimsókn síðasta miðvikudag í þeim tilgangi að fræðast um starfsemina. Rótarskot var formlega stofnað 6. nóvember 2023 en klúbburinn er fyrsti Satellite klúbbur landsins og er stofnaður með fulltingi Rótarýklúbbs Húsavíkur. Stofnfélagar voru 11, 6 karlar og 5 konur. Klúbburinn fundar tvisvar í mánuði, fyrsta og þriðja miðvikudag hvers mánaðar. Fyrsta miðvikudag mánaðarins hittast félagar víðsvegar um svæðið þar sem þeir fá kynningu í fjölbreyttum heimsóknum til fyrirtækja, félagasamtaka eða einkaaðila sem vinna áhugavert starf. Í vikunni var komið að því að heimsækja Framsýn og forvitnast um starfsemi félagsins sem gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Um er að ræða mjög áhugavert starf hjá Rótarskoti og þess má geta að Soffía Gísladóttir, sem er félagi í Rótarskoti, er fyrsta íslenska konan til þess að taka sæti í stjórn Rotary International en hún mun taka sæti árin 2026-2028. Hún situr í stjórninni fyrir svæði 17 og 18; Norðurlöndin, Grænland, Færeyjar, Álandseyjar, Eystrasaltsríkin, Pólland og Rússland. Eins og kunnugt er situr Soffía auk þess í sveitarstjórn Norðurþings en hún er búsett í Kelduhverfi. Það var virkilega ánægjulegt að fá félagsmenn Rótarskots í heimsókn og sköpuðust áhugaverðar og góðar umræður um starfsemi Framsýnar. Takk fyrir komuna ágætu félagar í Rótarskoti.
