Spörkum þessu í gegn!

Kári Marís Guðmundsson, forstjóri PCC á Bakka var sérstakur gestur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í gær. Kári fór yfir stöðuna og þá erfiðleika sem blasa við varðandi rekstur fyrirtækisins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Fram kom hjá Kára að staðan er óbreytt, út­litið er dökkt og það blas­ir ekk­ert annað við en rekstr­ar­stöðvun, þótt eng­in ákvörðun þar um hafi verið tek­in enn. Að staðaldri hafa verið um 150 starfsmenn við störf hjá fyrirtækinu, flestir þeirra eru í Framsýn. Þá eru iðnaðarmennirnir í Þingiðn. Hann sagði að fyrirtækið hefði átt mjög gott samstarf við stéttarfélögin vegna málsins enda markmiðið að eiga gott samstarf við hagsmunaaðila á svæðinu enda mikið í húfi fyrir fyrirtækið, starfsmenn, stéttarfélög starfsmanna og samfélagið allt við Skjálfanda. Góðar umræður urðu um málið og voru fundarmenn sammála um að gera allt sem félagið gæti til að tryggja áframhaldandi rekstur PCC eða eins og einn fundarmanna orðaði það, „Vonandi gengur það upp að sparka þessu í gegn enda miklir hagsmunir í húfi!“ Þess má geta til viðbótar að forsvarsmenn Framsýnar hafa verið í sambandi við þingmenn Norðausturskjördæmis, sveitarstjórnarmenn og ráðherra um málið. Eftir fund stjórnar og trúnaðarráðs í gær með forstjóra PCC var viðræðum haldið áfram milli forstjóra PCC og formanns Framsýnar. Sterkur  vilji er meðal þessara aðila að vinna náið saman hvað varðar að tryggja stöðu fyrirtækisins til framtíðar.

Deila á