Á aðalfundi Framsýnar á dögunum lagði Kristján M. Önundarson fram drög að ályktun um hugmyndir sem uppi eru um byggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Talaði hann gegn framkvæmdinni. Eftir góðar umræður var ályktunin samþykkt samhljóða.
Ályktun um óhóflegan peningaaustur á opinberu fé
„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags mótmælir harðlega þeim gengdarlausa peningaaustri sem á sér stað í könnun á væntanlegu flugvallarstæði í Hvassahrauni. Þann 1. október 2024 var birt skýrsla starfshóps um rannsóknir sem gerðar höfðu verið á veður- og náttúrufarsaðstæðum við áætlað flugvallarstæði í Hvassahrauni. Starfshópurinn var skipaður á grunni samkomulags ríkis og Reykjavíkurborgar og náði rannsóknin yfir um fimm ára tímabil. Innan rannsóknartímans hófust jarðhræringar á Reykjanesi og má segja að óróatíminn hafi hafist fyrir alvöru í byrjun árs 2020, þessar jarðhræringar leiddu síðan til eldgosahrinu sem sér ekki fyrir endann á. Fyrsta eldgosið hófst við Fagradalsfjall 19. mars 2021. Miklar jarðskjálftahrinur hafa staðið síðan þá með eldgosum inn á milli, alls ellefu eldgos, síðast gaus þann 1. apríl 2025, þá er talið að kvikugangurinn hafi náð um 20 km. til norðausturs og endi innan við 3 km. frá ætluðu flugvallarstæði. Við birtingu áðurnefndrar skýrslu var búið að kosta til um 170 milljónum króna í hana. Fyrir þá upphæð væri hægt að byggja upp frá grunni nokkra kílómetra af klæddum vegi í fullri breidd miðað við kröfur í dag, þjóðvegi sem allir Íslendingar og gestir okkar gætu notið góðs af. Þrátt fyrir jarðhræringar og eldgos er haldið áfram rannsóknum og skýrslugerðum, sem kosta þjóðfélagið milljónir á milljónir ofan, um væntanlegt flugvallarstæði þar sem einsýnt er að sennilega verður aldrei byggður flugvöllur. Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags leggur fram þá skýlausu kröfu að þessari rannsóknarvinnu og skýrslugerð verði hætt tafarlaust og þeim fjármunum sem áætlað er að fari í hana verði ráðstafað til lagfæringa og endurbóta á þjóðvegakerfinu.“