Í fréttum er þetta helst…….

Á næstu dögum munum við fjalla um aðalfund Framsýnar sem haldinn var síðasta miðvikudag, 23. apríl. Fundurinn var líflegur og skemmtilegur að vanda. Að venju komu fram margar áhugaverðar upplýsingar á fundinum auk þess sem fundarmenn voru duglegir að taka til máls um málefni félagsins. Alls greiddu 3.043 félagsmenn til Framsýnar stéttarfélags á árinu 2024 sem er svipaður fjöldi milli ára. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.887 karlar og 1.156 konur, sem skiptist þannig að konur eru 38% og karlar 62% félagsmanna. Á undanförnum árum hefur karlmönnum heldur fjölgað umfram konur í félaginu. Vissulega hefur það áhrif að starfsmenn PCC á Bakka eru í miklum meirihluta karlmenn, en verksmiðjan hóf starfsemi 2018. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 304, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 3.347 þann 31. desember 2024, það er greiðandi og gjaldfrjálsir félagsmenn.

Deila á