Fimmtudaginn, 13. mars, hófu tólf flutningarbílar ferð sína frá Selfossi til Húsavíkur með sex íbúða raðhús Bjargs íbúðafélags, um sólahring síðar var húsið risið á Húsavík. Hvert hús samanstendur af tveimur einingum.
Nýju húsin eru að Lyngholti 42-52 á Húsavík. Ferðalagið tók um 16 klukkutíma og var bílalestin komin á leiðarenda um hádegi, föstudaginn 14. mars. Aka þurfti um 800 km leið þar sem ekki var hægt að fara í gegnum nein jarðgöng eða minni og þrengri brýr. Þegar á leiðarenda var komið var strax hafist handa við að hífa húsin á grunninn sem beið tilbúinn á Húsavík. Fyrsta einingin var komin niður á grunn um klukkan 12:00 og sú síðasta klukkan 19:30 á föstudagskvöldinu.
Um er að ræða nýsköpunarverkefni þar sem íbúðirnar voru smíðaðar á Selfossi og fluttar nánast fullbúnar norður. Á sama tíma og húsin voru í smíðum á Selfossi sáu heimamenn á Húsavík um jarðvinnu og sökkla fyrir húsið. Þannig var hægt að vinna að tveimur verkþáttum á sama tíma sem styttir byggingartíma töluvert.
Ekki er ólíklegt að um Íslandsmet sé um að ræða en íbúðirnar voru afhentar nýjum leigutökum í dag 8. apríl, það er innan við mánuði frá því að raðhúsið kom í einingum til Húsavíkur. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, í umboði Bjargs íbúðafélags afhenti þremur leigutökum íbúðir í dag. Hinar íbúðirnar þrjár, eru jafnframt klárar, og verða afhentar á næstu dögum. Það var Unnur Lilja Erlingsdóttir sem tók við fyrstu lyklunum. Um er að ræða tímamót enda hefur Bjarg íbúðafélag ekki áður boðið upp á leiguíbúðir á Húsavík. Framsýn hefur ákveðið að fylgja því eftir að Bjarg komi að frekari uppbyggingu á Húsavík hvað varðar hentugar íbúðir fyrir félagsmenn í fullu samráði við Norðurþing.


