Kvóti og flugsamgöngur – Þingmaðurinn fékk skýr skilaboð

Þingmaðurinn Ingvar Þóroddsson óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í dag til að fara yfir atvinnu- og byggðamál í Þingeyjarsýslum og önnur þau mál sem brenna á heimamönnum. Ingvar er þingmaður í Norðausturkjördæmi auk þess að sitja í nefndum og ráðum á vegum Alþingis. Aðalsteinn Árni lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins gangi til liðs við heimamenn, hvað varðar samgöngumál, með það að markmiði að tryggja öruggar flugsamgöngur um Húsavík til framtíðar. Þá lagði hann ekki síður áherslu á mikilvægi þess að byggðakvóti til handa Raufarhöfn verði aukin verulega. Að mati Framsýnar er aukin byggðakvóti ein besta byggðaaðgerðin fyrir Raufarhöfn sem lengi hefur verið í vörn og ekki getað treyst á fjölbreytt atvinnulíf, fiskeldi eða vaxandi ferðaþjónustu líkt og þekkist víða í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins. Til upprifjunar má geta þess að Raufarhöfn var eitt fyrsta byggðarlagið á Íslandi sem fór í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir.“ Ingvar sagðist átta sig vel á stöðunni, þakkaði fyrir upplýsingarnar um leið og hann lagði mikið upp úr góðu samstarfi við Framsýn og íbúa svæðisins hvað varðaði hagsmunamál Þingeyinga.  

Deila á