Það er alltaf ánægjulegt að koma til Þórshafnar á Langanesi. Formaður Framsýnar gerði sér ferð austur fyrir helgina til að heimsækja formann Verkalýðsfélags Þórshafnar auk þess að spjalla við félagsmenn VÞ sem urðu á vegi hans. Að sjálfsögðu var tekið hús á Birni L. Lárussyni sveitarstjóra og hans ágæta samstarfsfólki á skrifstofu Langanesbyggðar sem ekki er skoðanalaust. Ánægjulegt er að sjá að uppbygging Ísfélagsins heldur áfram á Þórshöfn en þar er verið að byggja stóra frystigeymslu við höfnina sem ætlað er að bæta alla aðstöðu fyrirtækisins á staðnum. Bygging hennar er nú komin vel á veg ásamt tengibyggingu sem er rúmir 600 fermetrar. Byrjað er að reisa stálgrind hússins sem er um 17 metra há. Að grunnfleti er frystigeymslan um 2.070 fermetrar. Já, það er allt að gerast á Þórshöfn.
