Komu karlpeningnum á óvart á Bóndadaginn

Í tilefni af bóndadeginum héldu samstarfskonur körlum sem starfa með þeim að Garðarsbraut 26 í húsnæði stéttarfélaganna veislu í morgun. Á myndina vantar Ágúst Óskarsson, Benedikt Jóhannsson og Aðalstein Árna en þeir voru einnig á staðnum og nutu veitinga eins og þær gerast bestar en náðust ekki á mynd. Sagan segir að Gunnhildur Gunnsteinsdóttir hafi farið fyrir hópnum en hún var að afgreiða viðskiptavini þegar myndin var tekin en hún er þekkt fyrir sínar hnallþórur. Emilía Aðalsteinsdóttir mun einnig hafa komið að veisluborðinu enda glæsilegt í alla staði. Það er eins gott að karlpeningurinn standi sig á konudaginn með veglegri veislu sem svar við þessu frábæra veisluborði.

Til fróðleiks má geta þess að Bóndadagur nefnist fyrsti dagur Þorra. Takmarkaðar heimildir eru til um þennan dag og siði honum tengdum og því erfitt að ráða í aldur hans og hverju hann tengdist. Af þeim fáu heimildum sem til eru þá er þó ljóst af frásögnum af siðum honum tengdum að hér hafi verið um alþýðutyllidag en ekki hátíðisdag og því alls óvíst hvort hann hafi verið mjög útbreiddur eða hvaða tilstand hafi tíðkast þar sem hann var haldinn.

Núna hefur sú hefð komist á að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi líkt og að menn gefa konu sinni blóm á Konudaginn fyrsta dag Góu. Er þessi siður ekki ýkja gamall og má rekja upphaf hans til þess að Þórður Þorsteinsson blómasali á Sæbóli í Kópavogi auglýsti í útvarpi skömmu fyrir 1980 og hvatti konur til þess að gefa bændum sínum blóm í tilefni dagsins. Nefna má einnig að Þórður þessi var sá sem fyrstur blómasala auglýsti Konudagsblóm og því upphafsmaður að báðum þessum ekki svo ýkja gömlu siðum. Aðrir blómasalar og framleiðendur fylgdu fljótlega í kjölfarið.

Deila á